„Annar annmarkaflokkur rís af því, að verzlan Íslands er bundin við eitt land, en bægt frá viðskiptum við öll önnur. Þetta er móthverft öllu eðli verzlunarinnar og allrar menntunar, því þar er grundvölluð á framför og velgengni mannkynsins, að hver býti öðrum gæðum þeim, sem hann hefir, og allir styðji eftir megni hver annan. Þegar syndgað er móti þessari reglu og boðorði náttúrunnar sjálfrar, þá er hegníng viss hverri þjóð, sem það gjörir, og hegníng sú er skömm og skaði hennar sjálfrar. Ekkert land í veröldinni er sjálfu sér einhlítt, þó heimska mannanna hafi ætlað að koma sér svo við, að það mætti verða, en ekkert er heldur svo, að það sé ekki veitanda í einhverju og geti fyrir það fengið það, sem það þarfnast. En þegar það getur fengið það, og það veitir einmitt verzlanin þá er það eins og það hefði sjálft þessi gæði. Þegar nú verzlanin er frjáls, þá leitar hver þjóð með það, sem hún hefir aflögu, þángað sem hún getur fengið það, sem hún girnist, eða hún færir einni þjóð gæði annarrar“.
Nei, Jón Sigurðsson var ekki talsmaður hafta og ofstjórnar. Árið 1843, í þriðja árgangi Nýrra félagsrita birti Jón ritgerð sína, „Um verzlun á Íslandi“, og færði þar rök fyrir þeirri skoðun sinni að þá myndi Íslendingum farnast best þegar viðskipti þeirra væru sem frjálsust. Jón var frjálslyndur í góðum skilningi orðsins og vildi leysa úr læðingi krafta hins almenna manns. Hann áttaði sig á því, að vísasta leið til framfara er að hver og einn sé frjáls til að finna kröftum sínum farveg. Verslun og viðskipti yrðu að vera frjáls og yrðu menn einfaldlega að sætta sig við það þó frelsið yrði til þess að sumir misstu spón úr aski sínum:
„Að líkum hætti má atvinnufrelsi og verzlunarfrelsi ekki missa, þar sem nokkuð fjör og dugnaður á að komast á fót, og má í því skyni ekki hafa stundarskaða nokkurra manna fyrir augum, heldur gagn alþýðu bæði í bráð og lengd.“
Fyrir þessum skoðunum sínum barðist Jón Sigurðsson áratugum saman. Hann hvatti landa sína til að treysta ekki á að stjórnvöld leysu úr vanda þeirra; frjáls samtök og frumkvæði borgaranna væri mun líklegra til góðs árangurs. Árið 1844 ritaði hann í Ný félagsrit:
„Margir hinir vitrustu menn, sem ritað hafa um stjórnaraðferð á Englandi og rannsakað hana nákvæmlega, hafa álitið félagsfrelsið aðalstofn allrar framfarar þar á landi. Hin mikilvægustu fyrirtæki, bæði til andlegra og líkamlegra þarfa þjóðarinnar, tilbúníngur á vegum, höfnum, brúm, hjólskipum og mýmörgum öðrum stórsmíðum, sem stjórnin hefði með engu móti getað afkastað eða komizt yfir að láta gjöra, er allt gjört með félagssamtökum manna.“
Og sextán árum síðar, árið 1860, bætti hann við:
„Maður verður að venja sig af að treysta á stjórnina eina sér til hjálpar og venja sig á að nota sína eigin krafta; maður verður að læra að samlaga þessa krafta, svo þeir geti unnið saman til almennra heilla.“
Auðvitað er oft hæpið þegar vitnað er til rita löngu látinna manna, að fullyrða hvaða afstöðu þeir tækju til viðfangsefna nútímans ef þeir mættu mæla að nýju. Engu að síður þykir Vefþjóðviljanum forvitnilegt að velta fyrir sér hvað Jón Sigurðsson hefði að segja við þá menn sem nú á dögum leita sífellt til ríkisins eftir stuðningi við framkvæmdir sínar. Eru ekki fréttatímar fullir af forsvarsmönnum þrýstihópa sem fullyrða að þeirra bráðnauðsynlegu verkefni deyi drottni sínum ef ríki eða sveitarfélag komi ekki myndarlega að málinu? Eru það ekki rökin fyrir íþróttavöllunum, tónlistarhúsinu, sundlaugunum og sinfóníunni?
Þá er alkunna að þegar deilt er um samskipti Íslands við önnur ríki, að þá er oft gripið til Jóns. Þegar Ísland gekk í Atlantshafsbandalagið sneru vinstri menn styttu Jóns í alþingishúsinu við, og birtu svo mynd af því í Þjóðviljanum að Jón Sigurðsson hefði litið undan þegar þingmenn samþykktu inngönguna. Jón Sigurðsson hafði hins vegar í lifanda lífi látið þess getið að það væri „hinn mesti galli, að engar varnir [væru] á landinu.“ Og þegar Alþingi fjallaði um aðild Íslands að samningnum um hið evrópska efnahagssvæði þá hóf Ríkissjónvarpið ósjaldan fréttir sínar af málinu á því að birta nærmynd af styttu Jóns á Austurvelli.
En þó að í deilum um utanríkismál sé Jón Sigurðsson oft tekinn herskildi þegar menn vilja sanna landráð upp á hina fylkinguna þá er það ekki endilega gert af sérstakri virðingu fyrir skoðunum Jóns. Jón var nefnilega enginn einangrunarsinni, þó hann hefði væntanlega ekki heldur ljáð máls á að Ísland yrði innlimað í erlent tollmúrabandalag eins og suma langar mikið til:
„Þá hefir menntunin verið mest, þegar mestar hafa verið utanferðir og Íslendingar átt mest viðskipti við önnur lönd; þó ekki við eitt land, heldur mörg.“
En Jón geldur fyrir það að enn hefur hann þann sess í huga þorra landsmanna, að mönnum þykir fengur í því að gera hann að sínum manni. Þeirri tilhneigingu hefur Tómas skáld Guðmundsson lýst í ljóði sem segir frá hinni árlegu ferð að legsteini Jóns hinn 17. júní:
Og víst er sælt að geta gengið að jafn góðum manni á svona vísum stað, sem auk þess getur enga björg sér veitt, þótt allt hans líf sé rangfært sitt á hvað. Því nú er öllum annt um forsetann og allir landsins flokkar slást um hann, og þeir, sem aldrei tóku tryggð við neitt, þeir telja sér hann utanflokkamann. |
En ein óvæntasta tengingin við Jón kom þó fram á landsfundi Alþýðubandalagsins árið 1980. Þar kvaddi maður sér hljóðs mælti þessi spaklegu orð:
„Sömu misserin og Karl Marx og Friðrik Engels sömdu rétt fyrir miðja síðustu öld stefnuávarp um sameiningu öreiga allra landa, sem engu hefðu að týna nema hlekkjunum einum, en heilan heim að vinna, þá sat Jón Sigurðsson í Kaupmannahöfn og sendi Íslendingum hugvekju í Nýjum félagsritum, þar sem réttur vor til sérstaks ríkis var rökstuddur með tilvísun í sögu þjóðarinnar. Sú staðreynd, að sterkasta hugsjónaákall verkalýðsstéttarinnar og grundvallarritgerð íslenskrar sjálfstæðishreyfingar voru samin á sömu misserunum fyrir röskum 130 árum, sýnir okkur, hve lengi tveir höfuðþræðir okkar stefnu hafa legið saman í tímans rás.“
Leiðir þessara manna tveggja, ræðumannsins á landsfundinum og frelsishetjunnar í Kaupmannahöfn, liggja svo saman að nýju í dag þegar forseti Íslands leggur firnamikinn, árvissan og stóran blómsveig að minnisvarða Jóns Sigurðssonar á Austurvelli.