Kostir íslenska aflamarkskerfisins eru margir. Helsti kostur þess er þó að með eignarkvóta verða útgerðarmenn – eigendur kvótans – að horfa fram í veginn. Ofveiði rýrir eign þeirra þótt tímabundið komi meiri afli á land. Fyrir daga eignarkvótans beittu útgerðarmenn stjórnmálamenn látlausum þrýstingi um að auka leyfilegan heildarafla. Nú er afstaða þeirra ábyrgari enda fellur kvótahlutur þeirra í verði ef gengið er á fiskistofnana, sjálfan höfuðstólinn.
Á veiðileyfauppboði því sem Samfylkingin boðar myndu skammtímahagsmunir hins vegar frekar etja mönnum út í ofveiði en undir núverandi kerfi. Skammtímaleiga á kvóta af ríkinu í stað eignarkvóta myndi auka líkurnar á ábyrgðarlausri nýtingu fiskistofnana. Útgerðamenn hefðu ekki lengur jafnríka hagsmuni af því að skynsamleg nýting réði ferðinni við ákvörðun heildarafla.
Eða svo vitnað sé til orða Ágústs Einarssonar sem hann að vísu mælti áður en hann gerðist „formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar“:
„Ég er hræddur um, að ef farið yrði að selja veiðileyfin eða bjóða þau upp, myndi það leiða til pólitískrar beitingar opinberra fjármuna í gegnum fjárlög, bankastofnanir og sjóðakerfið, svo þessi aðilinn eða hinn gæti keypt sér kvóta. Þetta yrði sjálfsagt gert í nafni byggðastefnu eða látið heita eitthvað annað, en aðalatriðið er, að þetta yrðu ekki frjáls og óheft viðskipti, sem eru þó undirstaðan undir hagkvæmni í sjávarútvegi.“
Ýmsir hafa talið sig geta notað bágt ástand þorskstofnsins nú til að koma höggi á eignarkvótakerfið. Líklega verða það vindhögg. Minnkandi afli mun draga úr líkunum á veiðileyfaskatti og enn hefur enginn getað bent á kerfi sem getur leyst betur úr samdrætti af þessu tagi.