„Á hálfum áratug var sóað úr opinberum sjóðum yfir tíu milljörðum króna í laxeldisævintrýið. Þetta sjóðasukk á stóran þátt í efnahagserfiðleikum þjóðarinnar. Uppbyggingar- og jöfnunarsjóðir tæmdir, bankar og fjárfestingarsjóðir á barmi gjaldþrots. Þjóðin má borga brúsann af glannaskap og féglæfrum ábyrgðarlausra stjórnmálamanna.“ Svo hljóðar lýsingin á laxeldisævintýri íslenskra stjórnmálamanna á níunda áratugnum í bókinni Laxaveizlan mikla – og þjóðin borgar brúsann eftir Halldór Halldórsson sem kom út árið 1992. Á núverandi verðlagi eru þessir 10 til 11 milljarðar líklega yfir 20 milljarðar króna. Íslenskir pólitíkusar hafa svo sem oft kastað fé skattgreiðenda á glæ en laxeldisævintýrið á sér fáar hliðstæður. Það er ekki aðeins einstakt vegna þess hve hratt fé skattgreiðenda varð að engu heldur einnig vegna þess hve fyrirheitin voru mikil. Því mætti ætla að jafnvel ábyrgðarlausir eyðsluseggir á Alþingi fyndu sér önnur viðfangsefni en fiskeldi.
En nú hafa nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar lagt fram svohljóðandi tillögu til þingsályktunar: „Alþingi ályktar að fela sjávarútvegsráðherra að hlutast til um að skipulegar rannsóknir á þorskeldi frá klaki til slátrunar verði hafnar, svo og að fjarða- og kvíaeldi á þorski verði eflt og stutt, með það að markmiði að Íslendingar geti framleitt eldisþorsk til útflutnings innan fárra ára.“