Miðvikudagur 23. maí 2001

143. tbl. 5. árg.

Í DV á mánudaginn var lítil frétt á síðu 2 frá Akureyri. Þótt fréttin væri lítil og frá litlum bæ var hún um stórt mál. Í henni sagði frá neyðarnefndum og leyniskýrslum um afar slæma skuldastöðu íþróttafélaganna á Akureyri. Fréttir sem þessar eru tíðar frá öllum helstu sveitarfélögum landsins. Víða eru stórskuldug íþróttafélög að sliga sjóði sveitarfélaga. Engu að síður leggja sveitarfélög háar fjárhæðir í byggingu nýrra íþróttahúsa á vegum íþróttafélaga. Þannig styrkir Reykjavíkurborg íþróttafélög í borginni um allt að 85% af byggingarkostnaði íþróttahúsa, veitir þeim rekstrarstyrki og fasteignagjöld eru ekki innheimt. Þetta gerir borgin meðal annars á kostnað þeirra sem vilja ekkert af íþróttum vita eða stunda sínar íþróttir í líkamsræktarstöðvum. Þær stöðvar hafa ekki fengið 85% af byggingarkostnaði úr vösum skattgreiðenda, fá enga rekstrarstyrki frá sveitarfélögunum og greiða fasteignagjöld.

Í frétt DV var rætt við formann bæjarráðs Akureyrar og eftir honum haft að það sé „ljóst að félögin skulda mjög mikið og bærinn verður að koma að því með einhverjum hætti.“ Hvers vegna þarf bærinn að koma að því þegar íþróttafélög eru að fara á hausinn? Það geta vart talist óskýr skilaboð frá almenningi ef félög, sem fengið hafa mest allt húsnæði sitt gefins og njóta ríkulegra opinberra styrkja og fyrirgreiðslu, standa ekki undir sér. Félög fara einfaldlega á hausinn af því að almenningur hefur ekki áhuga á að styðja við bakið á þeim. Rétt eins og önnur fyrirtæki. Það er búið að ganga úr skugga um hvað Akureyringar vilja láta af hendi rakna til íþróttafélaganna á staðnum – það liggur fyrir að það nægir ekki til að reka þau. En þegar það nægir ekki, þá vilja bæjarráðsmenn taka það sem upp á vantar af bæjarbúum með valdi.