Þriðjudagur 22. maí 2001

142. tbl. 5. árg.

Þingmenn Samfylkingarinnar eru ekki allir fastir í því að semja fyrirspurnir til ráðherra um liðin, yfirstandandi eða væntanleg fjárhagsvandræði heimilanna í landinu. Stundum koma þeir auga á mál sem gætu verið forvitnileg. Lúðvík Bergvinsson spurði fjármálaráðherra á dögunum um leigukostnað ríkisins á húsi við Borgartún 21. Heyrst hafði að greiðsla ríkisins fyrir leigu á húsnæðinu væri upp á milljarða króna og formaður Samfylkingarinnar hafði haft stór orð um hve einkennilegt það væri að greiða svo háar fjárhæðir og þegar upp væri staðið að tuttugu árum liðnum ætti ríkið ekki húsnæðið.

Fjármálaráðherra svaraði  fyrirspurninni og í ljós kom að leigan er lægri en gengur og gerist fyrir sambærilegt húsnæði í höfuðborginni. Málið er því að öllum líkindum útrætt þótt Össur Skarhéðinsson sitji eftir og reyni að átta sig á því hvers vegna leigjendur eignast ekki húsnæðið sem þeir leigja. Það sem Lúðvík hefði hins vegar átt að gera var að spyrja hvort þörf væri á öllum þeim ríkisstofnunum sem nýta nú hina 9.000 fermetra byggingu. Ríkissáttasemjari, Fasteignamat ríkisins, Barnaverndarstofa, Löggildingarstofa, Yfirskattanefnd, Íbúðalánasjóður og LÍN hafa nú hreiðrað um sig við Borgartúnið. Er ekki mögulegt að komast af með færri ríkisstofnanir og þar með minni húsnæðiskostnað?

Embætti ríkissáttasemjara er til dæmis sérkennilegt. Húsnæði embættisins er einhvers konar athvarf fyrir miðaldra „forystumenn á vinnumarkaði“ sem nenna ekki að vera heima hjá sér á kvöldin og um helgar. Þess í stað hanga þeir í „karphúsinu“ með mönnum sem eru svipað þenkjandi og fréttamenn í sama ástandi hanga fyrir utan og fá stundum að koma inn fyrir. Embætti ríkissáttasemjara kostar almenning um 40 milljónir króna á ári. Stór hluti vinnuveitenda og launþega semur um kaup og kjör alla ævina án þess að hanga nokkru sinni í „samningalotu í karphúsinu“ á kvöldin og um helgar. Hvers vegna á þessi hluti að greiða skatta sem fara í ríkissáttasemjara handa liðinu sem á svo bágt með að vera heima hjá sér á kvöldin og um helgar að það neitar að semja um kaup og kjör? Hvernig fóru menn eiginlega að á vinnumarkaði áður en ríkissáttasemjari tók til starfa? Og þegar ríkið hefur á annað borð tekið að sér að semja um verð milli kaupanda og seljanda hvers vegna standa ekki fulltrúar ríkisins á bílasöluplönum og hafa milligöngu um samninga um verð á notuðum bílum?