Mánudagur 7. maí 2001

127. tbl. 5. árg.

Samkeppnisstofnun er versta ríkisstofnun landsins. Hún er jafnvel verri en forveri hennar, Verðlagsstofnun. Það er ekki nóg með kerfiskarlarnir sem vinna á stofnuninni telji sig vita hvernig eigi að reka fyrirtæki í öllum helstu atvinnugreinum. Einstök fyrirtæki og atvinnugreinar geta búist við því að einn góðan veðurdag komi níð um þau út á skýrslu frá Samkeppnisstofnun. Þetta gerist fyrirvaralaust og án þess að menn fái tækifæri til að bera hönd yfir höfuð sér. Samkeppnisstofnun er allt í senn: ákærandi, sækjandi, verjandi og dómari.

Matvöruverslanir auglýsa fyrir 20 – 30 milljónir í hverjum mánuði og á síðasta ári voru opnaðar 13 nýjar matvöruverslanir á höfuðborgarsvæðinu. Fjárfest var í matvöruverslun fyrir á annan milljarð á síðasta ári. Þá hefur vöruúrval aukist og afgreiðslutími lengst á undanförnum árum. Nú þyrfti það ekki endilega að þýða að engin keppni færi fram á milli verslana þótt minna væri auglýst eða minna fjárfest í nýjum verslunum en þessi mikla fjárfesting og sífelldar auglýsingar eru ekki til marks um annað en að verslanir eru að breyta og bæta þjónustu sína til að ná til neytenda og auglýsingarnar væru að sjálfsögðu óþarfar ef kúnnarnir kæmu á færibandi.

Samkeppnisstofnun tekur hins vegar ekkert tillit til alls þessa í nýrri skýrslu sinni um verðbreytingu á matvörumarkaði á árunum 1996 til 2001. Það er vafalaust ekki tilviljun að Samkeppnisstofnun dregur sérstaklega fram tímabilið frá ársbyrjun 1996 til ársbyrjunar 2000. Í skýrslu Samkeppnisstofnunar segir að verðlag í matvöruverslunum (svonefndar dagvörur) hafi hækkað um 15% frá ársbyrjun 1996 til ársbyrjunar 2000 en á sama tíma hafi vísitala neysluverðs án dagvöru hækkað um 10-11%. Þetta telur Samkeppnisstofnun sanna að samkeppni hafi minnkað á matvörumarkaði og álagning hafi hækkað. Samkeppnisstofnun tekur ekkert tillit til þess að laun hækkuðu um 28% á sama tímabili en samkvæmt tilkynningu frá Baugi eru laun yfir 40% af álagningu matvöruverslana. Húsnæði hækkaði einnig verulega í verði á þessu óskatímabili Samkeppnisstofnunar.
Þveröfug niðurstaða fengist er tekið væri tímabilið ársbyrjun 1997 til 2000, 1992 til 2000 eða bara 1996 til 2001. Á öllum þessum tímabilum hækkaði dagvaran minna en vísitala neysluverðs án dagvöru. Og hvernig stendur á því að í hinni minnkandi samkeppni þá stóð vísitala dagvöru í stað árið 2000 en á sama tíma hækkaði vísitala neysluverðs um 4%?

Þegar síðustu 10 ár eru skoðuð hefur verðlag á mat- og drykkjarvörum fylgt almennri verðlagsþróun á sama tíma og vöruúrval hefur aukist og afgreiðslutími lengst. Það er fráleitt að draga stórkostlegar ályktanir um annað eins og Samkeppnisstofnun gerir í skýrslu sinni. Sumar matvörur hafa hækkað umfram neysluvísitölu en aðrar lækkað. Til dæmis hafa þurrkaðir ávextir og kartöfluflögur aðeins hækkað um 4% á hinu heilaga viðmiðunartímabili Samkeppnisstofnunar á sama tíma og neysluverðsvísitalan án dagvöru hækkaði um 10 – 11%.
Í skýrslu Samkeppnisstofnunar segir orðrétt: „Það er mat Samkeppnisstofnunar að minni samkeppni í kjölfar þeirrar samþjöppunar sem varð á smásölumarkaði á fyrri hluta ársins 1999 hafi birst í þeim verðhækkunum á dagvöru sem urðu á árinu 1999.“ Þrátt fyrir hina hræðilegu „samþjöppun“ árið 1999 lækkaði dagvara miðað við aðrar vörur árið 2000. Engin tilraun er gerð til að skýra þessa lækkun á árinu 2000 enda passar lækkunin ekki inn í kenninguna um samþjöppunina, minni samkeppni og hærri álagningu.

Skýrsla Samkeppnisstofnunar er upp á 89 síður og tók rúmt ár í vinnslu hjá stofnuninni. Í skýrslunni koma þó engar aðrar upplýsingar fram en lesa má úr töflum um vísitölu neysluverðs sem Hagstofa Íslands gefur út. Í skýrslunni eru hins vegar dregnar rangar ályktanir af vísitölubreytingum og þessar röngu ályktanir notaðar til að varpa rýrð á heila atvinnugrein og einstök fyrirtæki innan hennar án þess að þau fái að kynna sín sjónarmið.

Helsta tillaga Samkeppnisstofnunar um aðgerðir í kjölfar skýrslunnar er að Samkeppnisstofnun „hefji sérstakt stjórnsýslumál“ og skoði málið betur. Niðurstaða slíks máls yrði sennilega sú að Samkeppnisstofnun teldi að fyrirtækin stunduðu „samsæri gegn neytendum“. Og eftir að Samkeppnisstofnun hefði fallist á að sú ákæra Samkeppnisstofnunar væri á rökum reist, þá myndi Samkeppnisstofnun ákveða að þessi vondu fyrirtæki eigi að greiða himinháa sekt, samkvæmt nánari ákvörðun Samkeppnisstofnunar. Þetta ferli myndi vekja mikinn fögnuð nútímalegra fjölmiðlamanna sem myndu skrifa langa leiðara um það að frelsið og lýðræðið hefðu sigrað.