,,Hvaða bót er í því að leyfa fíkniefni í því skyni að bæta ástandið í fíkniefnamálum? Er ekki allt eins hægt að halda því fram að það sé til bóta fyrir umferðina að leggja niður umferðarlög? Eða þá að það sé vænlegt til árangurs til að styrkja eignarréttinn að leyfa fólki að stela að vild?“ Einhvern veginn á þennan veg hljómar röksemdarfærsla, sem æ oftar ratar í pistla þeirra sem ógjarnan vilja víkja af þeirri stefnu sem baráttan gegn fíkniefnum hefur fylgt (árangurslaust) nú um áratugaskeið.
„Áfengisneysla margfaldaðist ekki við aflagningu áfengisbannsins á fyrri hluta aldarinnar. En glæpum snarfækkaði og lögreglan fékk önnur og skynsamari verkefni en að eltast við bruggara og smyglara út um hvippinn og hvappinn. Stríðið gegn áfenginu var jafntilgangs- og árangurslaust og núverandi stríð gegn fíkniefnum.“ |
Lögleyfing fíkniefna yrði fyrst og fremst til þess að koma í veg fyrir óæskilegar og óþarfar afleiðingar bannsins. Fáir eru til þess að neita því að banninu fylgja glæpir í mun meira magni en annars væri. Fáir neita því að bannið í sjálfu sér er gagnlaust – árangurinn af því er engin. Ekki verður litið framhjá því að það kostar skattgreiðendur mikið þrátt fyrir gagnsleysið. Að vísu hefur bannið afar góð áhrif á fjárhagsstöðu þeirra sem kjósa að brjóta það. Áhættan kann að vera allnokkur, en umbunin er geysimikil. Bannið færir glæpamönnum ofsagróða. Hluti af þeim mikla hagnaði fer eflaust í að spilla réttaröryggi landans. Fjölmörg dæmi er um slíkt erlendis og eflaust er það einungis tímaspursmál hvenær slíkt mál kemst í hámæli hérlendis. Innan réttarkerfisins vinnur fólk sem er hvorki viljasterkara eða breyskara en gerist og gengur annars staðar. Það er erfitt að ímynda sér að engin þeirra, sem að nafninu til berjast gegn fíkniefnum, þiggi smá skerf af hagnaði fíkniefnaviðskipta í skiptum fyrir þjónustu sem gagnast smyglurum og sölumönnum. Vefþjóðviljinn man a.m.k. ekki eftir því að lögreglan hafi skýrt hvarf fíkniefna úr eigin geymslum með því að sanna að um innbrot hafi verið að ræða. Ekki er hægt að fullyrða hér að um innanbúðarmann hafi verið að ræða, en á meðan þessi efni eru ekki einu sinni örugg í geymslu laganna varða, hvernig dettur nokkrum manni í hug að hægt sé að koma í veg fyrir innflutning þeirra, nema í mýflugumynd? Á Litla-Hrauni þurfa fangar víst ekki að óttast fíkniefnaþurrð, ef mark má taka á nýlegri heimildarmynd um einn fastagestinn þar – og hverjir telja sig umkomna að lýsa því yfir að landið allt skuli fíkniefnalaust um þetta leyti á meðan viðskipti með þau blómstra innan fangelsismúra?
Þyngri refsingar eiga engu eftir að breyta til batnaðar. Sjálfur dómsmálaráðherran hefur sett spurningarmerki við hertar lögregluaðgerðir gegn fíkniefnanotkun. En það var áður en hún ákvað að rýmka refsirammann. Til þess að senda skýr skilaboð. Eins og til séu einhverjir, sem stundar viðskipti með fíkniefni, sem eru ekki alveg með það á hreinu að það er ólöglegt. Þyngri refsingar kalla á meiri hörku í þessum málaflokki, sem fyrr eða síðar bitnar á saklausum borgurum, auk þess sem lögreglan sjálf er sett í meiri hættu við slíkan verknað. Á sumum stöðum á jarðarkringlunni liggja dauðarefsingar við að smygla fíkniefnum og eiga viðskipti með þau. Það hefur engin áhrif haft á framboð þeirra, nema þá hækkað verð þeirra og aukið glæpi í kringum þau. Hversu langt vilja menn ganga hér áður en tilgangsleysið verður þeim ljóst?
Auk þess að þyngja refsingar til að viðhalda vonlausri baráttu í stríði sem ekki er hægt að vinna, er einnig mjög þrýst á að löggæslan, a.m.k. einhver hluti hennar, fái að taka á fíkniefnamálum án tillits til stjórnarskrárbundinna réttinda borgaranna. Til lengri tíma litið er hætt við að þetta verði látið viðgangast víðar en í fíkniefnamálum, uns svo er komið að ákveðin réttindi eru aðeins til í orði kveðnu. Slíkt er ekki til heilla. Sagan greinir ekki frá mörgum þjóðfélögum þar sem saman fara alltumlykjandi ríkisvald og réttindalaus pöpull annars vegar og almenn velsæld og frelsi hins vegar. Þrátt fyrir að lögregluyfirvöld í Sovétríkjunum gömlu þyrftu hvorki að spyrja kóng né prest um leyfi til að ráðast inn á heimili fólks og hnýsast endalaust um hagi þess, þá var nóg um fíkniefni í þessu sæluríki sósíalismans. Og enn má spyrja hversu langt yfirvöld eru tilbúið að ganga hérlendis? Á að sýna gömlu kommunum hvernig á að gera þetta almennilega? En fyrst að afnám réttinda og einkalífs dugði ekki til þar, hvers vegna ætti það að gera það hér? Hér er um að ræða verstu afleiðingar bannsins. Þær sem grafa undan réttindum manna – og því sem skilgreinir hvað það er, sem ríkisvaldið má aldrei gert á hlut þeirra. Þetta eru hin lagalegu landamæri sem skilja að frjálsa menn og þræla. Þeim er ekki fórnandi fyrir bann á ákveðna óæskilega neysluvöru, sem virkar hvort eð er ekki.
Enn aðrir hafa af því nokkrar áhyggjur að lögleyfing efnanna auki aðgang að þeim og sjá ekki betur en að það þýði fleiri neytendur en ella. Það er nær ómögulegt að sanna eitt eða neitt í því sambandi. Áfengisneysla margfaldaðist ekki við aflagningu áfengisbannsins á fyrri hluta aldarinnar. En glæpum snarfækkaði og lögreglan fékk önnur og skynsamari verkefni en að eltast við bruggara og smyglara út um hvippinn og hvappinn. Stríðið gegn áfenginu var jafntilgangs- og árangurslaust og núverandi stríð gegn fíkniefnum. En þá er jafnan bent á, að áfengi hefur verið hluti af vestrænni menningu um aldalangt skeið, sem ekki er hægt að segja um fíkniefni. Það kann vel að vera rétt. Sama mátti segja um atvinnu- og stjórnmálaþátttöku kvenna – hún var ekki til staðar svo öldum skipti. Sama mátti segja um almenna læsi borgaranna – það var ekki til staðar heldur. Sama mátti segja um óvígða sambúð – slíkt var víða fordæmt af bæði kirkjunni og þjóðfélaginu svo öldum skipti. Margar aðrar breytingar má nefna, góðar og slæmar. En breytingar þessar áttu sér fæstar stað með fyrirframfengnu samþykki stjórnvalda á hverjum tíma – venjulega spyrna þau við fótum þegar tiltölulega róttækar þjóðfélagsbreytingar eiga sér stað. Og það er spurning hvort ekki sé það sama að gerast hvað varðar fíkniefni, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr.
Hafa fíkniefni ekki einfaldlega nú þegar markað sér bás í vestrænni menningu? Svoleiðis nokk gerist stundum án þess að yfirvöld sé spurð leyfis, líkt og fyrri umbyltingar eru dæmi um. Tugmilljónir Evrópumanna og Bandaríkjamanna neyta fíkniefna reglulega. Hér er ekki einungis verið að ræða um eyðnismitaða, draugumlíka fíkla með sprauturnar hangandi úr gatslitnum æðunum þess á milli sem þeir ræna og rupla til að eiga fyrir efnunum. Þetta er fólk úr öllum stéttum sem hefur gert fíkniefni hluta af sínu lífi. Hvað kemur stjórnvöldum það við? Til hvers hafa Evrópu- og Bandaríkjamenn sett þúsundir milljarða króna í stríð gegn fíkniefnum, allt á kostnað skattgreiðenda, án þess að geta sýnt fram á nokkurn árangur? Hvers vegna eiga borgarar þessara landa að þola sífelldar árásir á réttindi þeirra, síendurtekin tilvik um spillingu í réttarkerfinu – sem á að tryggja og vernda réttindi þeirra – og gullhúðaðan glæpalýð sem á ríkidæmi sitt því einu að þakka að þetta bann er í gildi? Enn má minna á hliðstæðu í áfengisbanninu. Al Capone varð vel sterkefnaður á áfengissölu vegna þess að áfengi var þá ólöglegt. Frá því að áfengi var lögleyft að nýju hefur fækkað umtalsvert í hópi morðóðra áfengissala á borð við Capone. Áfengissalar nútímans hafa aðrar og betri aðferðir við að útkljá deilumál sín á milli. Réttarkerfið viðurkennir nú starfsemi þeirra og dómsalir standa þeim nú opnir til að leysa ágreiningsmál án blóðsúthellinga. Þeir notast ekki lengur við skotvopn til að vinna markaði. Þetta hafði þau áhrif að glæpum stórfækkaði, líkt og áður var vikið að. Áfengi rústar samt enn þá lífum milljóna manna um heim allan. Það hefur ekki breyst – og það hélt því engin fram að það myndi breytast. En bannið gegn áfenginu var bæði of dýru verði keypt og algerlega gagnslaust – og það sama gildir um fíkniefnabannið.
Umferðarlög og lög gegn eignaupptöku í formi rána, þjófnaða og gripdeilda eru ekki sama marki brennd og lög sem banna innflutning, framleiðslu, sölu, neyslu og dreifingu fíkniefna. Afleiðingar fyrrnefndu laganna eru í langflestum tilvikum jákvæð og skynsamleg – og veikja ekki þau gildi sem vestrænar þjóðir halda í heiðri – sem er ekki hægt að segja um afleiðingar fíkniefnabannsins. Með notkun fíkniefna eru menn ekki skaða aðra heldur sjálfa sig en með þjófnaði skaða menn aðra og akstur yfir á rauðu ljósi stefnir lífi annarra í hættu. Þess vegna eru umferðarlög ekki afnumin til að bæta umferðina og þjófnaður leyfður til að tryggja eignarrétt fólks.