Í dag er þess minnst að fimmtíu ár eru liðin frá gerð varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna. Fá mál hafa valdið jafn hörðum deilum hér á landi á undanförnum árum og þessi samningur og aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu. Andstæðingar vestrænnar samvinnu á vinstri væng íslenskra stjórnvalda hömuðust gegn þessu samstarfi áratugum saman og beittu í baráttu sinni ýmsum aðferðum. Áróðurinn var lengst af rekinn á þjóðernissinnuðum forsendum; NATO-aðildin og vera varnarliðsins átti að vera stórfelld aðför að sjálfstæði Íslendinga, íslenskri menningu og þjóðerni. Þeir stjórnmálamenn sem höfðu forgöngu um að Íslendingar tækju þátt í samstarfinu voru útmálaðir sem landráðamenn og þjóðníðingar. Einhvern veginn hreif þessi málflutningur ekki til lengdar og þá var breytt um tón. Þá fóru vinstri menn en að reyna að magna upp þá hættu fyrir Íslendinga, sem stafað gæti af veru varnarliðsins hér á landi. Látið var í það skína að vegna varnarliðsins yrði Ísland fyrsta skotmarkið í yfirvofandi kjarnorkustríði Sovétríkjanna og Bandaríkjanna en ef Ísland væri hlutlaust og varnarlaust myndu allir láta það í friði.
Einhvern var það nú svo, að þrátt fyrir allan þennan hræðsluáróður, sem rekinn var af vinstri hreyfingunni á Íslandi, þá lét meiri hluti landsmanna aldrei blekkjast. Flestum fannst sjálfstæðinu ekki mikið ógnað með þessum hætti og reynsla fólks úr síðari heimsstyrjöldinni sýndi að hlutleysi var haldlítið ef átök brutust út milli stórra og öflugra ríkja. Aðeins tvívegis í fimmtíu ára sögu varnarsamningsins hefur ríkisstjórn verið mynduð, sem vildi segja honum upp, og í bæði skiptin var fallið frá þeim áformum. Innan þeirra flokka, sem aðild áttu að þessum stjórnum var ekki einhugur um málið og herstöðvarmálinu því ýtt út af borðinu við fyrsta tækifæri. Raunar féllu báðar þessar vinstri stjórnir með sögulegum hætti vegna innra sundurlyndis. Þeir flokkar á vinstri vængnum sem börðust gegn vestrænni samvinnu hlutu aldrei mikið fylgi, enda var málflutningur þeirra jafnan ótrúverðugur vegna náinna tengsla þeirra við ógnarstjórnir kommúnista í Sovétríkjunum og leppríkjum þeirra.
Varnarsamningurinn og aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu hafa frá upphafi verið mikilvægustu hornsteinarnir í utanríkisstefnu Íslendinga. Reynslan hefur sýnt að þátttaka Íslendinga í þessu samstarfi var bæði rétt og skynsamleg og þrátt fyrir margvíslegar breytingar á alþjóðavettvangi eru ekki komnar fram neinar forsendur til að breyta þeirri stefnu. Íslendingar eiga enn samleið með lýðræðisþjóðum Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku og fá best tryggt öryggi sitt og frið í þessum heimshluta með virkri þátttöku í Atlantshafsbandalaginu. Varnarsamningurinn við Bandaríkin er enn þýðingarmikill fyrir öryggi landsins og jafnframt mikilvægt framlag Íslendinga til sameiginlegra varna bandalagsins.