Þriðjudagur 8. maí 2001

128. tbl. 5. árg.

Friedrich Hayek: A Biography
Friedrich Hayek: A Biography

Þennan dag fyrir 102 árum fæddist Friedrich A. Hayek í Vínarborg í Austurríki. Hayek hlaut Nóbelsverðlaunin í hagfræði á áttunda áratugnum og framlag hans á sviði hagfræðinnar er merkilegt. Það er hins vegar líklega með bókinni Leiðin til ánauðar, The Road to Serfdom á frummálinu, sem Hayek hafði mest áhrif á gang mála í heiminum. Bókin kom út árið 1944 og í henni sýndi hann fram á að mikil ríkisumsvif og einstaklingsfrelsi færu ekki saman. Hayek var alla tíð ötull málsvari markaðsviðskipta og benti á að frumforsenda þeirra sé að eignarréttur sé virtur, því án hans verði engin viðskipti. Og án viðskipta á markaði sé ekki hægt að vita hvað eigi að framleiða og hvernig, því eina leiðin til að gera þetta sé að styðjast við verð sem myndist á markaði. Í verðinu sem fáist við markaðsviðskiptin séu fólgnar mikilsverðar upplýsingar um framboð og eftirspurn. Þessar upplýsingar verði til úr samsafnaðri þekkingu allra sem stundi viðskipti – og vitaskuld stunda allir viðskipti þegar þeir kaupa eða selja vöru – og þessari þekkingu sé ekki hægt að safna saman í einu ráðuneyti eða einni ríkisstofnun (lesandinn er ekki á villigötum þó Samkeppnisstofnun/Verðlagsstofnun komi upp í hugann við þennan lestur). Umfjöllun Hayeks og útskýring á nýtingu markaðarins á dreifðri þekkingu er einmitt eitt helsta framlag hans til hagfræðinnar. Leiðin til ánauðar kom út árið 1980 í íslenskri þýðingu Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar.

F. A. Hayek fékkst við fleira en hagfræði á ferli sínum og má þar nefna heimspeki, lögfræði og sálfræði. Um hann hefur nú verið rituð ævisaga, Friedrich Hayek: A Biography, og mun höfundur hennar, Alan Ebenstein, verða með erindi á bókastefnu Cato-stofnunarinnar í kvöld klukkan 22:00 (18:00 í Washington DC). Hægt er að horfa á og/eða hlýða á erindið beint á Netinu.

Bensínskattur Samfylkingarinnar myndi snarhækka bensínverðið frá því sem nú er. Og þá yrðu ökumenn aldeilis að kunna sér hóf í áfyllingum.
Bensínskattur Samfylkingarinnar myndi snarhækka bensínverðið frá því sem nú er. Og þá yrðu ökumenn aldeilis að kunna sér hóf í áfyllingum.

Ein heitasta ósk Samfylkingarinnar fyrir síðustu kosningar var að ná stjórnartaumunum til að geta komið á svokölluðum „ almennum koldíoxíðskatti“, en það er á mannamáli sérstakur skattur á bensín. Þessi ósk rættist nú ekki og þess í stað tók við stjórn sem hafði ekki sérstaklega horn í síðu almennings og fékkst meira að segja til að breyta skattlagningu á bensín þannig að hækkandi heimsmarkaðsverð á bensíni hefði minni áhrif til hækkunar hér. Með þessu móti tókst að halda aðeins í við hækkanirnar, en þær hafa engu að síður orðið miklar og bensínverðið er nú komið yfir 100 kr/ltr eins og bíleigendur kannast allt of vel við. Ef ekki hefði verið gripið til þeirrar lækkunar á bensínsköttum sem að framan greinir væri bensínverð í dag um 120 kr/ltr, eða enn óskemmtilegra en raunin er nú. Ekki er gott að segja hversu hár bensínskattur Samfylkingarinnar hefði orðið, en jafnvel þó gert sé ráð fyrir að hann hefði „aðeins“ verið 10 kr/ltr – og minna má það varla vera ef það á að duga til að draga úr notkun bensíns og þar með útblæstri koldíoxíðs – væri bensínið nú á 130 kr/ltr. Þá mætti vafalaust sjá menn glaðbeitta undir stýri fulla af þakklæti í garð Össurar Skarphéðinssonar og félaga.