Laugardagur 21. apríl 2001

111. tbl. 5. árg.

Í vikunni bárust af því fréttir af innflutningur ólöglegra fíkniefna hefði verið skipulagður úr fangelsinu að Litla-Hrauni. Hér er þó aðeins um grun lögreglunnar að ræða en það er áhugavert að lögreglan skuli telja þetta líklegt. Áður hafa borist af því fréttir bæði héðan og erlendis frá að fíkniefnaneysla í fangelsum sé vandamál. Fíkniefni hafa einnig horfið úr vörslu lögreglu víða um heim.
Ætli þeir sem eru hvað ákafastir um að banna ýmis fíkniefni fái enga bakþanka við fréttir sem þessar? Ætli þeir velti því alls ekki fyrir sér hversu raunhæft það er að koma í veg fyrir innflutning og neyslu fíkniefna í heilum löndum þegar fíkniefni streyma inn í rammgerð fangelsi, verslun með þau er skipulögð þaðan og fíkniefni hverfa úr vörslu lögreglunnar?

Vef-Þjóðviljinn hefur um árabil fjallað um þær neikvæðu afleiðingar sem sjálft bannið við ýmsum fíkniefnum hefur. Fíkniefnaneysla er böl en hún réttlætir ekki allt það viðbótarböl sem lagt er á menn með banninu. Ekki síst þegar enginn annar sjáanlegur ávinningur er af því. Stuðningsmenn bannsins benda oft á hörmulegar afleiðingar fíkniefnaneyslu máli sínu til stuðnings. Þeir eru þó fyrst og fremst á benda á ástandið eins og það er undir þeirra eigin skipan.