Fimmtudagur 19. apríl 2001

109. tbl. 5. árg.

Atvinnuleysi er ekki vandamál á Íslandi nú um stundir, en fyrir nokkrum árum kynntust landsmenn atvinnuleysi. Það varð þó ekki að viðvarandi vandamáli og ein ástæða þess er vafalítið að bótakerfi atvinnulausra varð aldrei jafn umfangsmikið og vinnuletjandi og í Þýskalandi svo dæmi sé tekið. Þar í landi eru nú um fjórar milljónir manna á atvinnuleysisskrá og á sama tíma um 600.000 ómönnuð störf. Atvinnuleysið mætti því minnka verulega með því einu að hinir atvinnulausu teldu ástæðu til að hætta á bótum og fara að vinna, en vandinn í Þýskalandi er sá að bæturnar eru of góðar til að nægur hvati sé fyrir hendi til að vinna.

Jafnaðarmenn í Þýskalandi settu sér það markmið fyrir síðustu kosningar að ná atvinnuleysi niður fyrir 3,5 milljónir manna. Tækist stjórnvöldum að fylla lausar stöður með atvinnulausum næðist þetta takmark og þess vegna hefur kanslari Þýskalands nú vakið máls á að í Þýskalandi eigi menn ekki að hafa rétt til leti. Vandinn liggur hins vegar í kerfinu og menn geta ekki sigrast á honum nema stokka upp velferðarkerfið. Slík uppstokkun er hins vegar ekki vinsæl í jafnaðarmannaflokki kanslarans og því er hætt við að orðin tóm verði látin nægja. Í því sambandi má til að mynda líta til Frakklands, þar sem einnig ríkir stjórn jafnaðarmanna. Þar komu samtök atvinnulífsins í fyrra fram með þá hugmynd að ef atvinnulaus maður hafnaði tvisvar starfi missti hann bæturnar. Verkalýðsfélögin börðust gegn þessu og niðurstaðan varð sú að stjórnvöld þorðu ekki að gera breytingar.

Þessir erfiðleikar við að koma á skynsamlegri reglum í sambandi við atvinnuleysi í mörgum Evrópuríkjum er raunar lýsandi fyrir vandann sem atvinnulífið í álfunni glímir við. Stirðbusalegar reglur sem að stórum hluta byggjast á öfugsnúnum hugmyndum um rétt starfsmanna hafa orðið til þess að atvinnulífið stenst ekki samanburð við ríki með meira frelsi og sveigjanleika á vinnumarkaðnum. Dæmi um slík ríki eru Bandaríkin og Ísland, en atvinnuleysi í þessum tveimur ríkjum er á allt öðru stigi en í helstu ríkjum Evrópu.