„En mér verður aftur hugsað til amerísku frumbyggjanna sem fengu hugmyndina um sjálfbæra þróun ekki aðeins í vöggugjöf, heldur lifðu beinlínis í anda hennar, sannfærðir um það, að ella hlytu þeir að tortíma sjáfum sér.“ sagði Sveinbjörn I. Baldvinsson í grein í Morgunblaðinu í vetur. Greinina prýddi mynd af skuggalegum iðnjöfri í jakkafötum sem afhenti barni gauðslitna og útjaskaða jarðkringluna en í bakgrunni hennar stóð reykurinn upp úr verksmiðjuskorsteinum.
Sveinbjörn I. Baldvinsson er ekki einn um að trúa því að fyrr á öldum hafi indíánar í Ameríku borið sérstaka virðingu fyrir náttúrunni og verið betur innrættir en síðari tíma menn hvað það varðar. Þetta er ein margra órökstuddra alhæfinga sem umhverfisverndarhreyfingin hefur gert að sinni. Al Gore vitnaði í bók sinni Earth in Balance til ræðu indíánahöfðingjans Chief Seattle sem höfðinginn átti að hafa haldið árið 1855. Ræðan er vissulega til vitnis um mikla ást Chief Seattle á náttúrunni og vafalaust hafa margir umhverfisverndarsinnar tárast við lestur hennar. Eini gallinn á þessu öllu saman er að ræðan var samin af handritshöfundinum Ted Perry árið 1971. Perry hefur að sjálfsögðu reynt að leiðrétta misskilninginn en umhverfisverndarsinnar hafa gjarna það sem betur hljómar en sannar reynist.
Sumir frumbyggja Ameríku ráku heilu vísundahjarðirnar fram af klettum ef því var að skipta og hirtu aðeins brot að kjötinu, þeir ruddu skóga og hafa að öllum líkindum átt stóran þátt í því að útrýma nokkrum dýrategundum. Um umgengni þeirra má lesa í bókum á borð við The Ecological Indian – Myth and History eftir Shepard Krech. En fyrst og síðast eru rómantískar alhæfingar um umgengni frumbyggja Ameríku fráleitar. Hinir ólíku flokkar þeirra höfðu misjafna siði. Skipan eignarréttar á landi og veiðirétti er líklegri til að hafa haft áhrif á umgengni indíána en ímyndaðar „vöggugjafir“. Það hefur auðvitað komið í ljós við rannsóknir á sögu þeirra að sumir skipulögðu nýtingu á gæðum jarðar með einhvers konar einkaeignarrétti en aðrir ekki.