Föstudagur 16. mars 2001

75. tbl. 5. árg.

Í gær var maður handtekinn fyrir að falsa krónur íslenska ríkisins en við þeim glæp liggur allt að tólf ára fangelsi. Í frétt á mbl.is sagði um málið: „Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni í Reykjavík hefur undanfarna daga hefur verið komið með til hennar með peningaseðla, sem virtust ekta við fyrstu sýn en reyndust vera falsaðir við nánari skoðun.“ Það var og.

Mörgum grandvörum borgurum var illa brugðið þegar fréttist af peningafalsinu.
Mörgum grandvörum borgurum var illa brugðið þegar fréttist af peningafalsinu.

Frá árinu 1981 hefur íslenska ríkið gefið út þá útgáfu af krónum sem nú er í umferð. Við fyrstu sýn virtust þær ekta en áður en við nánari skoðun reyndust þær vafasamar. Til dæmis eru aurarnir sem fylgdu krónunum í upphafi einskis virði í dag. Krónurnar sjálfar eru um 5% að því verðgildi sem þær höfðu þegar þær voru gefnar út. Nú þarf um nítján krónur til að kaupa það sama og fékkst fyrir eina krónu árið 1981. Ástæðan fyrir þessu verðhruni íslensku krónunnar er offramboð af henni. Of mikið var prentað af seðlum með þeim afleiðingum að verðgildi þeirra féll. Þetta hefur raunar breyst til batnaðar á síðasta áratug og verðbólga (eða verðfall peninga) ekki verið það vandamál sem áður var. En freistingin er enn til staðar. Stjórnmálamenn geta enn sett prentvélarnar af stað. Í fréttinni á mbl.is sagði einnig: „Þung viðurlög liggja við að falsa peningaseðla og koma þeim í umferð jafnvel þótt ekki sé um annað en fikt að ræða.“ En spyrja má á móti hver refsing sé þá við að stunda þetta á skiplagðan hátt áratugum saman.

Jafnvel allra klókustu menn hafa orðið fyrir því að nota falsaða peninga.
Jafnvel allra klókustu menn hafa orðið fyrir því að nota falsaða peninga.

Vef-Þjóðviljinn fylgist lítillega með þjóðmálaumræðunni – þó hann núorðið biðji menn um að hafa sig afsakaðan þegar „flugvallarmálið“ berst í tal – en engu að síður hefir hann ekki heyrt nein frambærileg rök fyrir því að ríkið reki seðlabanka og gefi út peninga. Þetta á bæði við um íslenska ríkið og önnur ríki. Því miður er það oft þannig þegar rætt er um hlutverk ríkisins að þeir sem vilja minnka umsvif ríkisins þurfa að færa margvísleg rök fyrir máli sínu. Þeir sem vilja hins vegar að ríkið skipti sér af öllu milli himins og jarðar þurfa ekki að tilgreina neinar ástæður fyrir því. Hefur einhver stuðningsmaður seðlabanka til dæmis greint frá því nýlega hvers vegna ríki rekur seðlabanka og gefur út gjaldmiðil?