Fimmtudagur 15. mars 2001

74. tbl. 5. árg.

ASÍ átti erindi við ríkisstjórnina í vikunni. Erindin voru raunar tvö. Í fyrsta lagi vildi ASÍ að ríkisstjórnin lækkaði tekjuskattinn og var fallist á það þótt líklegt megi teljast að sveitarfélögin með Reykjavíkurborg fremsta í flokki hækki bara útsvarið á móti eins og þau gerðu í fyrra og skattar muni því í raun ekki lækka. En þetta var ágætt hjá ASÍ enda ekki á hverjum degi sem þau samtök leggja til að skattar lækki. Hitt erindið vakti nokkra furðu enda auðveldar það ríkisstjórninni ekki að lækka skatta eins og ASÍ bað um. ASÍ var nefnilega einnig að snapa sér framlag úr ríkissjóði til „verðlagseftirlits“. Aukin útgjöld ríkissjóðs draga hvorki úr verðbólgu né auka þau líkurnar á að skattar lækki umfram það sem Reykjavíkurborg hækkar útsvarið.

Þess vegna hækkar hjá þeim gjaldskráin hraðar en auga á festir.
Þess vegna hækkar hjá þeim gjaldskráin hraðar en auga á festir.
Rakarar þurfa að eignast ný og ný áhöld.
Rakarar þurfa að eignast ný og ný áhöld.

Væntanlega mun þetta verðlagseftirlit eiga að taka á fyrirtækjum en ekki einstaklingum. Það er ólíklegt að ASÍ muni beita sér beint gegn því að verð á vinnu launafólks, þ.e. kaup, hækki þótt samtökin hafi vissulega gert margt á undanförnum áratugum til að draga úr hagvexti og rýra lífskjör manna. Þó mun málið vandast þegar Dúlli rakari og félagi í VR ætlar að hækka klippinguna enda er hann ekki að gera annað en hækka sín eigin laun. Og þegar það er haft í huga að launakostnaður fyrirtækja er að jafnaði um 2/3 kostnaðar fyrirtækjanna flækist málið enn frekar.

Á móti kemur að þegar ríkisstyrkt verðlagseftirlit ASÍ tekur til starfa mun ríkisrekið verðlagseftirlit á vegum Samkeppnisstofnunar fá samkeppni um ríkisrekið verðlagseftirlit. Óvíst er um afstöðu Samkeppnisstofnunar til þessarar nýju samkeppni í ríkisreknu verðlagseftirliti en stofnunin hefur á undanförnum árum reynt í krafti ríkisstyrkja að drepa allt einkaframtak við verðkönnun. Óvíst er hvað kæmi út úr erindi, frá til dæmis dagblaði, til Samkeppnisstofnunar þar sem gerð væri athugasemd við óheilbrigða samkeppni Samkeppnisstofnunar við verðkönnun sem dagblaðið gerir án ríkisstyrkja og birtir á neytendasíðum sínum.