Framsóknarflokkurinn er undarlegur flokkur. Fylgi hans meðal landsmanna hefur yfirleitt ekki verið nema í mesta hófi en þrátt fyrir það hefur hann setið í ríkisstjórn í óratíma. Undanfarin þrjátíu ár hefur flokkurinn til dæmis aldrei jafnast á við Sjálfstæðisflokkinn í fylgi, en hins vegar setið lengur en hann í ríkisstjórn. Af síðustu þrjátíu árum hefur Framsóknarflokkurinn setið í ríkisstjórn í rúmlega tuttugu og fimm. Það er nokkuð vel af sér vikið hjá ekki stærri flokki. Þessi stjórnarseta Framsóknar stafar vitaskuld ekki síst af því að hann hefur sagst vera „miðjuflokkur“ og hafa sem slíkur heimild til að semja við næstum hvern sem er um næstum hvað sem er.
Og framsóknarmenn hefur sjaldan skort vonbiðlana. Undanfarin ár hafa þeir til dæmis starfað í ríkisstjórn með sjálfstæðismönnum og á sama tíma hefur umhyggja vinstri flokkanna fyrir framsóknarmönnum aukist talsvert og ræða þeir mikið um það hversu illa slíkt stjórnarsamstarf fari með Framsóknarflokkinn og hafi reyndar alltaf gert. Og ef marka má suma forystumenn Framsóknarflokksins þá hafa þeir þessar sömu áhyggjur. Nú er Vefþjóðviljinn enginn sérstakur áhugamaður um velferð Framsóknarflokksins og ætlar því ekki að blanda sér í umræðu um það hvers kyns stjórnarsamstarf henti þeim flokki best. Nema það að Vefþjóðviljinn leyfir sér að benda á eitt smáatriði. Ef horft er fimmtíu ár aftur í tímann fæst ein lítil vísbending um þetta hálf ómerkilega mál: Hafi Framsóknarflokkurinn setið í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum þá hefur Framsóknarflokkurinn undantekningarlaust setið í þeirri ríkisstjórn sem næst hefur verið mynduð. Hafi hann hins vegar sest í vinstri stjórn hefur hann hins vegar oftar en ekki dottið úr ríkisstjórn að þeim ævintýrum loknum. En það er ef til vill bættur skaði.
Framsóknarmenn halda flokksþing sitt um næstu helgi og eru þar allir flokksmenn nema Ísólfur Gylfi í framboði til allra helstu embætta. Þar er til dæmis sá mæti maður Ólafur Örn Haraldsson í framboði til varaformanns og er hann svo vel kynntur að samkvæmt heimildum Vefþjóðviljans nýtur hann fylgis allra þeirra sem hann mætti í þeirri framboðsferð sem hann fór til Suðurskautslandsins á dögunum, og þó ekki sé vitað um aðra stuðningsmenn hans en þennan hóp, þá er aldrei að vita nema hann dugi honum til sigurs. Á flokksþinginu mun athygli manna svo einnig beinast að öðrum kosningum. Þannig verða til dæmis kosin húsvörður, símadama og ritari Framsóknarflokksins. Vinstri menn í Sandgerði eru sérstaklega spenntir vegna ritarakjörsins en þar á þeirra maður, Hjálmar Árnason, mikla sigurmöguleika. Er því hugsanlegt að Hjálmar verði fyrsti formaður Alþýðubandalagsins í Sandgerði sem einnig nær kjöri sem ritari Framsóknarflokksins og yrði það enn ein skrautfjöðrin í hatti Hjálmars.
Fleiri snjallir menn eru í framboði. Þannig gefur sá orðhagi maður Guðni Ágústsson kost á sér sem varaformaður og mun hann njóta víðtæks stuðnings. Sérstaklega munu íhaldsamari flokksmenn vera ánægðir með slagorð hans, „Árdegið kallar – áfram liggja sporin!“, sem vart verður skilið öðruvísi en Guðni vilji að héðan í frá gangi Framsóknarflokkurinn aftur á bak. Guðni hefur svo til að gulltryggja sigur sinn hvatt til þess að Framsóknarflokkurinn leggi núverandi tákni sínu og taki í staðinn upp mynd af hvítu hrossi. Segir Guðni að eftir þá breytingu geti framsóknarmenn tekið á móti nýjum félögum með orðum úr hinu kunna ljóði Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi, Þú komst í hlaðið á hvítum hesti.
Og þó óljóst sé hvort fylgi Framsóknarflokksins muni aukast við það hann snúist nú á hæli og haldi hratt um áður gengin spor þá þarf enginn að efast um að framsóknarmenn haldi ró sinni og treysti Guðna því frekar sem hraðar miðar aftur á bak. Eða hvað segir ekki Davíð Stefánsson:
Þó líði dagar og líði nætur,
má lengi rekja gömul spor.
Þó kuldinn næði um daladætur,
þá dreymir allar um sól og vor.