Í síðustu viku héldu svokölluð „Samtök verslunarinnar“ aðalfund sinn og sögðu fjölmiðlar frá ræðu þeirri sem formaður samtakanna, Haukur Þór Hauksson, hélt á fundinum. Samkvæmt þeim fréttum mun Haukur mjög hafa talað máli starfsmanna Samkeppnisstofnunar og hvatt til þess að þeir hefðu miklar og rúmgóðar heimildir til að taka vondu kallana til bæna. Og vondu kallarnir, það eru stóru verslanirnar og þá víst ekki síst þær sem eru stærstar á matvörumarkaði. Mun Haukur Þór einnig hafa gagnrýnt Samtök iðnaðarins harðlega fyrir það að þeim samtökum mun hafa orðið það á að gagnrýna starfsmenn Samkeppnisstofnunar. Mun Haukur hafa verið á þeirri skoðun að að sé hið versta mál að samtök, sem að hluta séu rekin fyrir almannafé, séu að finna að störfum þeirra sem starfi „í þágu almannahagsmuna“.
Það er útbreidd kenning að samkeppnisreglur séu settar sérstaklega í þágu „almennings“. Að það sé „almenningi“ í hag að opinberir embættismenn láti stór fyrirtæki finna til tevatnsins en styðji við bakið á smærri keppinautum þeirra. Eins og Vefþjóðviljinn hefur af og til leyft sér að nefna, þá er þessi almannaheillakenning í hæpnara lagi. Af hverju ætli fyrirtæki sé stórt og hafi mikil umsvif? Í flestum tilvikum er það vegna þess að fólk hefur kosið að eiga viðskipti við það. Þegar fólk beinir í vaxandi mæli viðskiptum sínum til ákveðinna fyrirtækja en skiptir síður við önnur, fer ekki hjá því að sum fyrirtæki styrkist en vígstaða annarra versni sama skapi. Og þá hafa þau síðarnefndu – ekki aðeins á Íslandi heldur um allan hinn vestræna heim – í örvæntingu krafist þess að ríkið komi sér til aðstoðar og setji „samkeppnisreglur“ sem jafni vígstöðuna á nýjan leik. Þetta hefur borið þann árangur að víðast hvar hafa, í nafni „almannaheilla“, verið settar reglur til að halda niðri þeim fyrirtækjum sem fólk vill helst versla við en ýta undir þau fyrirtæki sem fólk vill síður versla við.
Í Bandaríkjunum hefur þessi þróun gengið lengst og þar eru samkeppnisyfirvöld mikilvægt verkfæri fyrirtækja sem eru að fara illa út úr samkeppni við önnur. Í rekstraráætlunum og skipulagi fjölmargra fyrirtækja er nú gert ráð fyrir sérstökum deildum sérfræðinga sem sinni því einu að herja á samkeppnisyfirvöld og beita þeim gegn keppinautum fyrirtækisins. Þykir slíkt víða jafn sjálfsagður hluti af rekstrinum og til dæmis auglýsingar og venjulegt kynningarstarf. Þó sjálfsagt séu þau fá íslensk fyrirtækin sem þannig vinna þá er því ekki að neita að margir keppast við að bera lof á starfsmenn Samkeppnisstofnunar og hvetja þá til frekari umsvifa. Er stundum engu líkara en menn vilji að starfsmennirnir vinni eftir þeim vígorðum sem rithöfundurinn Jón Trausti notaði fyrir rúmum áttatíu árum í orðastað jafnaðarmanna: „Upp með dalina! Niður með fjöllin!“.
Og svo vikið sé að samkeppnisyfirvöldum og stórum og smáum íslenskum verslunum: Eins og áður hefur verið sagt í Vefþjóðviljanum, þá er hverjum manni frjálst að finnast tilteknar verslanakeðjur vera orðnar „of stórar“, en sá maður ætti hins vegar að láta sér nægja að versla sjálfur við kaupmanninn á horninu og hvetja aðra til að gera hið sama. En hann ætti ekki að siga yfirvöldum á þær verslanir sem hafa vaxið af því að fólk hefur viljað versla við þær.