Mánudagur 12. mars 2001

71. tbl. 5. árg.

Er ástæða til að koma fram við konur eins og þær séu ekki jafnokar karla? Þarf að meðhöndla þær eins og þær ráði ekki við sömu verkefni og karlar, þurfi lengri tíma til að vinna tiltekin verk en karlar eða hræðist að taka að sér það sem karlar eru alls óhræddir við? Hér er ekki átt við verk á borð við að lyfta grjóthnullungum eða eitthvað ámóta sem karlar eru sjálfsagt frekar byggðir fyrir en konur, heldur er átt við að tala, skrifa og hugsa. Eru konur verr til þess fallnar er karlar að tala, skrifa og hugsa? Ekki er ætlunin að halda því fram hér að svo sé, en hið opinbera, nánar tiltekið „Nefnd um aukinn hlut kvenna í stjórnmálum“, gaf nýverið út bækling þar sem ýjað er að því að konur séu lakari en karlar á þessum sviðum. Og það furðulegasta við bæklinginn er að konur unnu að gerð hans og kynning á honum er í höndum kvenna. Það sem meira er – honum er ætlað að styrkja stöðu kvenna!

Já, það er margt skrýtið í kýrhausnum – og sjálfsagt nautshausnum líka ef út í það er farið. Bæklingurinn sem um ræðir er gefinn út með það að markmiði að fá fjölmiðlafólk til að gefa konum meiri gaum og tala meira við konur og um konur svo þeim muni í framhaldi af því fjölga í stjórnmálum. Í bæklingnum kemur að vísu fram að konum hefur fjölgað mjög ört í stjórnmálum, en bara ekki nógu ört að mati bæklingshöfunda. Tilgangurinn helgar meðalið eins og fyrri daginn og í því skyni að freista þess að fjölga konum í stjórnmálum eru þær niðurlægðar í bæklingi sem hið opinbera gefur út. Í bæklingnum segir til að mynda: „Konur vilja oft fá lengri undirbúningstíma fyrir viðtal en karlar og meiri upplýsingar um framgangsmáta viðtalsins. Þetta má ekki verða til þess að framhjá konum sé gengið“. Hvað þætti fólki nú um ef orðinu „konur“ yrði skipt út fyrir „karlar“ og öfugt? Það þætti líklega furðulegt. En hið nöturlega er að meintir talsmenn kvenréttinda hafa gert svo lítið úr konum svo lengi að fáum bregður víst við að sjá svona lagað um konur. Fleiri dæmi úr bæklingnum: „Störf kvenna eru ekki síður fréttnæm en hefðbundin störf karla. Dagleg viðfangsefni kvenna fela í sér fréttir.“ „Kona sem fær jákvæðan stuðning frá fréttamanni í sínu fyrsta viðtali verður fúsari til viðtals næst þegar hún er beðin.“ „Konur jafnt sem karlar geta annast fréttaflutning af öllum málum.“

Hið opinbera, bæði ríki og sveitarfélög, ættu að hætta afskiptum af málum sem kölluð eru jafnréttismál, leggja niður öll jafnréttisráðin, -nefndirnar og embætti jafnréttisfulltrúa og leyfa bæði konum og körlum að vera í friði að þessu leyti. Fyrir konur er óþolandi að hjá hinu opinbera sé fólk í fullu starfi við að niðurlægja þær og fyrir karlmenn er þetta að minnsta kosti vandræðalegt, þó þeir líði fyrir þetta „jafnréttisstarf“ með öðrum hætti.