Laugardagur 17. febrúar 2001

48. tbl. 5. árg.

Lækkun skatta hefur tvo ótvíræða kosti hið minnsta. Lægri skattar þýða annars vegar að almenningur hefur meira fé milli handanna og hins vegar að hagvöxtur eykst og þar með velmegun almennings. Fyrra atriðið er bein afleiðing skattalækkunar og því augljóst. Síðara atriðið er hins vegar óbein afleiðing og þess vegna tekst sumum að þræta fyrir að þau tengsl eigi endilega við og finna jafnvel út að skattalækkun geti verið stórhættuleg. Þetta er sem betur fer ekki algeng skoðun og hún heyrist helst frá þeim sem síst er trúandi í þessum efnum, þ.e. stjórnmálamönnum sem langar til að eyða annarra manna fé.
Hagfræðin býr við sama vanda og aðrar fræðigreinar sem fást við mannlega hegðun; ekki er hægt að endurtaka tilraunir og gera mælingar með sömu nákvæmni og í raunvísindum. Vitlausar kenningar í hagfræði, svo sem að skattalækkun sé ekki af hinu góða, njóta þessa erfiðleika við rannsóknir á efnahagslífinu.

Þó getur stundum verið gagn að því að bera saman ríki Bandaríkjanna og sjá hvernig ólíkar ákvarðanir stjórnvalda um efnahagsleg atriði hafa haft á hagkerfið. Samanburður hefur verið gerður á ríkjum Bandaríkjanna í því skyni að finna út hvaða áhrif stefna í skattamálum hefur haft. Einn mælikvarði á þróttinn í efnahagslífinu og velsæld almennings er hversu mörg störf atvinnulífið skapar. Þegar þau 10 ríki sem lækkuðu skatta mest eru borin saman við þau 10 ríki sem hækkuðu skatta mest, kemur í ljós að í fyrrnefndu ríkjunum voru sköpuð tvöfalt fleiri störf en í hinum síðarnefnda. Vöxtur tekna var 27% meiri þar sem skattar voru lækkaðir en þar sem þeir voru hækkaðir.

Sú einfalda staðreynd að skattar spilli fyrir atvinnulífinu og dragi úr vexti þess er eiginlega of augljós til að hafa þurfi orð á henni. Þó gerist það ítrekað að stjórnmálamenn annað hvort skilja þetta ekki eða vilja ekki skilja þetta, því þeir vilja eyða meiru og kaupa fleiri atkvæði. Slíkir stjórnmálamenn sitja víða, en í tilefni af því að upplýst hefur verið að stjórnendur Reykjavíkurborgar hafi hækkað álögur á borgarbúa um 48% að raungildi á síðustu fjórum árum er rétt að nefna þá sérstaklega til sögunnar. Raunar eru þessir stjórnmálamenn afar gott dæmi, því þeir virðast fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar hafa áttað sig á að gott væri að greiða lægri skatta, þó þeir hafi síðan ítrekað hækkað skatta á aðra. Þetta má sjá bæði af hegðun þeirra og loforði Helga Hjörvar, forseta borgarstjórnar, fyrir síðustu kosningar, þegar hann sagði að eitt forgangverkefnið væri „lækkun gjalda á Reykvíkinga“. Efndir loforðsins eru glæsileg hækkun gjalda upp á tugi prósenta.