Föstudagur 16. febrúar 2001

47. tbl. 5. árg.

Vafalaust þykir einhverjum það markverðasta við nýjan innanríkisráðherra Bandaríkjanna að hann er fyrsta konan sem gegnir því embætti í 151 árs sögu þess. Jafnvel gæti einhver látið hvarfla að sér að fjölmiðlar hefðu gert því betri skil ef vinstrisinnuð kona hefði orðið þess heiðurs aðnjótandi. Það hefði verið gerð ítarleg fréttaskýring um málið í Speglinum, Samfélaginu í nærmynd eða Víðsjá. Það varðar þó meiru að Gale Norton virðist hafa aðrar áherslur í umhverfismálum en forveri hennar í starfi innanríkisráðherra, Bruce Babbit. Lynn Scarlett tók fyrsta viðtalið við Norton eftir að öldungadeildin staðfesti tilnefningu hennar og birtist það í Tech Central Station. Þar kemur fram að Norton telur til dæmis að skýr og tryggur eignarréttur geti stuðlað að bættri umgengni um náttúruna. Hún segir að ekki standi sérstakt val á milli umhverfisverndar og verndar á eignarrétti. Andstætt ýmsum stjórnmálamönnum virðist hún einnig átta sig á því að þekkingin safnast ekki saman á dularfullan hátt í ráðuneytum í Washington D.C. Þekkingin er dreifð á meðal einstaklinganna og til þess að fást við mál þurfi að virkja þessa þekkingu.

Í viðtalinu segir Norton m.a.: „Ákvarðanir sem teknar eru í Washington og varða allt landið eru ekki sniðnar fyrir staðbundnar aðstæður. Þegar þær eru teknar er þekking heimamanna, þeirra sem lifa í nálægð við landið, ekki nýtt. Ýmsar bestu ráðstafanir í umhverfismálum hafa verið gerðar með þátttöku heimamanna. Í Colorado eru býli í fallegum fjalladal. Umhverfisverndarsinnar settu sig upp á móti beit í dalnum en bændur voru andvígir boðum og bönnum í nafni umhverfisverndar. Bændurnir og umhverfisverndarsinnarnir sáu hins vegar að með sama áframhaldi myndi dalurinn verða fylltur af skíðaskálum í stað búgarðanna. Þeir sáu þann kost vænstan að samræma markmið sín og tryggðu í sameiningu að bæði er hægt að nýta og njóta náttúrunnar.“

Viðtalið í heild sinni bendir til að Norton hafi einlægan áhuga á því að stuðla að betra umhverfi. Sjálfskipaðir umhverfisverndarsinnar lögðu allt kapp á að koma í veg fyrir skipan hennar í embætti innaríkisráðherra. Ef til vill er það vegna þess að Norton vill leyfa fleirum að koma að ákvörðunum um umhverfismál en samtökum sem hafa það eitt að markmiði að raka saman félagsgjöldum í nafni umhverfisverndar.