Helgarsprokið 18. febrúar 2001

49. tbl. 5. árg.

Eru þeir borgarfulltrúar sem lögðust gegn byggingum á óræktartúni í Laugardal stuðningsmenn þess að Reykjavíkurflugvöllur fari svo þétta megi byggðina í borginni? Óbyggð Vatnsmýrin er þá  „sár í borginni“ og „skipulagsmorð“ svo notað sé orðskrúð andstæðinga flugvallarins en óræktartún í Laugardalnum ekki. Hvað ef væri sjór þar sem Vatnsmýrin er nú? Væri Reykjavík þá dauðadæmd? Í blaðinu Framtíðarborgin Reykjavík sem dreift var til borgarbúa í vikunni kemur fram að Vatnsmýrin svarar einungis til 6% af landrýmisþörf fyrir nýja byggð á næstu 20 árum. Í blaðinu er birtur listi yfir hvað sé neikvæðast við miðborg Reykjavíkur ef marka má skoðanakönnun meðal borgarbúa. Flugvöllurinn er ekki á meðal þeirra átta atriða sem helst voru nefnd en í áttunda sæti var mengun sem 3% nefndu. Þetta rímar við skoðanakönnun sem gerð var um umhverfismál fyrir Reykjavíkurborg árið 1999 en þar nefndi 1,1% svarenda að þeir vildu flugvöllinn burt þegar þeir voru beðnir að nefna eitthvað sem þeir vildu koma á framfæri um borgina. Í huga venjulegs fólks er „flugvallarmálið“ algert smámál.

„Velmegnunin er komin á svo hátt stig að nú mega menningarvitarnir hvorki sjá eða heyra í flugvél, finna lykt af fiski, sjá olíutank eða stórmarkað né heyra í bíl. Allt gæti þetta truflað norpið á kaffihúsunum og hina „lifandi“ borgarmenningu.“

Víða á Vesturlöndum, ekki síst í Bandaríkjunum, hafa á undanförnum áratugum komið fram háværar kröfur um að þétta byggð í borgum. Vestan hafs hefur þessi stefna verið nefnd „smart growth“. Tilgangurinn með þéttingunni er að draga úr bílaumferð og þar með mengun og um leið að færa aukið líf í ákveðin hverfi með aukinni umferð gangandi og hjólandi. Gera á „almenningssamgöngum“ hærra undir höfði og helst að þrengja svo að bílaumferð að fólk sjái sér þann kost vænstan að taka lest eða strætó. Stefnan gerir jafnframt ráð fyrir að byggð verði blandaðri en áður og fólk geti í auknum mæli gengið til vinnu enda verði minni atvinnurekstur í sama hverfi og fólkið býr eða jafnvel í sama húsi. Skipulagsfræðingar, arkitektar og byggingaverktakar og aðrir sem hafa beina atvinnuhagsmuni af því af hræra í skipulagi borga eru áberandi í þessari umræðu.
Ýmislegt í málflutningi andstæðinga flugvallarins í Vatnsmýrinni bendir til að hreyfing þeirra sé upphafið að „smart growth“ vakningu hér á landi. Að minnsta kosti beita þeir svipuðum málflutningi um nauðsyn þess að þétta byggðina þegar þeir færa rök fyrir því að flugvöllurinn verði færður. Þeir draga upp rómantíska mynd af því sem verður þegar flugvöllurinn verður á burt. Í stað hans komi falleg íbúðabyggð og „þekkingarfyrirtæki“.

Reynslan frá Bandaríkjunum bendir þó ekki til þess að þétting byggðar dragi úr mengun. Það þarf raunar ekki að koma á óvart því loftmengun í borgum er mæld í þéttni útblástursefna. Ef byggð er þétt um 50% þarf að draga úr umferð um meira en 33% til að mengun frá umferð minnki. Þetta er óraunhæft markmið og þétting hefur því aukna mengun í för með sér. Aukinni þéttingu fylgir einnig minna útsýni og þar sem sól ekki mjög hátt á lofti yfir Íslandi er hætt við að þéttingin dragi úr birtu. Los Angeles borg er ein þéttbýlasta borg Bandaríkjanna og þar hefur loftmengun jafnframt verið með mesta móti. Annar angi af baráttunni gegn flugvellinum er fyrirlitningin á úthverfum þ.e. hverfum þar sem „fólk gerir ekkert annað en að éta og sofa“ á milli þess sem það ekur á einkabílnum í vinnuna. Það eru að sjálfsögðu þeir sem aldrei hafa búið í úthverfum sem fyrirlíta þau mest; auðnuleysingjar í miðbænum sem telja ráp á inniskóm milli kaffihúsa og listasafna einhvers konar æðra lífsform, já eiginlega eina lífsformið. Allir aðrir eru sljóir íbúar í dauðum úthverfum. Þessir kaffihúsaspekingar vilja troða sínum lífsstíl upp á aðra og krafan um þéttingu byggðar er liður í því. Þótt þessir menningarvitar trúi því ekki þá býr fólk í dreifbýlum úthverfum af því að þau hafa ákveðna kosti umfram miðbæinn. Þar eiga menn kost á stærra húsnæði og einkagarði fyrir sig og sína. Menn telja það heldur ekki verra að komast í annað umhverfi þegar þeir fara heim úr vinnu á kvöldin og um helgar. Það er ótrúlegt en satt að sumum nægir samneyti við fjölskylduna og vini í frítíma og þurfa ekki andlegan innblástur á kaffihúsi. Úthverfi (eða svefnbæir eins og miðbæjarspekingarnir kalla þau) eru einfaldlega afleiðing af því að menn eiga kost á öðru en að búa hver ofan í öðrum og nýta sér þann kost ef þeim sýnist svo. Miðbæir með þétta byggð, þröngar götur, lítið svigrúm fyrir bíla en veitingastaði og gallerí á jarðhæðum húsa hafa sína kosti en það er ágætt að geta valið á milli þessara kosta.

Umræðan um flugvöllinn er einnig afleiðing af velmegun. Hún er velmegunarsjúkdómur. Fólk hefur það svo gott að þetta smámál er gert að stórmáli og atkvæðagreiðsla um það höfð til marks um „þróun lýðræðis“ en ekki algjört virðingarleysi borgaryfirvalda gagnvart skattgreiðendum sem þurfa að leggja út 30 milljónir króna fyrir atkvæðagreiðslunni. Velmegnunin er komin á svo hátt stig að nú mega menningarvitarnir hvorki sjá eða heyra í flugvél, finna lykt af fiski, sjá olíutank eða stórmarkað né heyra í bíl. Allt gæti þetta truflað norpið á kaffihúsunum og hina „lifandi“ borgarmenningu. Egill Helgason, umsjónarmaður umræðuþáttarins Silfur Egils á Skjá 1, hefur staðið framarlega í þeim litla hópi sem vill skipuleggja líf fólks með því að taka að sér að skipuleggja umhverfi þess. Líklega nær skipulagsþráhyggjan hámarki í málflutningi hans. Honum finnst flugvöllurinn móðgun við hina hugsandi miðborgara, ekki síst hið háa Alþingi sem hann sprengir í loft upp í sjónvarpsþætti sínum í hverri viku til að undirstrika hve hættulegur flugvöllurinn sé. Hann þarf líka að „…skrúfa upp í sjónvarpinu til yfirgnæfa hávaðann frá flugvélunum“. Hann telur að bræðslulyktin frá fiskimjölsverksmiðju „…misbjóði þefskyni borgaranna“. Hann „…hugsar með hryllingi til Smáramallsins“. Og áhrif bílsins á Reykjavík að hans mati eru einnig dramatísk: „…þetta er að verða eins og risastórt bílastæði þar sem aldrei sést neitt kvikt á sveimi nema gegnum bílrúðu“. Snobbið nær þó hámarki í umsögn hans um borgina í blaðinu Framtíðarborginni: „Reykjavík er að mínu viti ljót borg, hún er ljót, tætingsleg og sundurlaus. Hvernig hefðu New York og París og London litið út ef þær hefðu verið byggðar af Íslendingum. Ég bara krossa mig!“

Og það er í huga þessara manna sem sérstakur hernaður gegn Reykjavíkurflugvelli er „stærsta hagsmunamál Reykvíkinga“. Það er fyrir sálarheill þessa fáu manna sem Reykjavíkurborg efnir til sérstakrar flugvallarkosningar í næsta mánuði. Þrjátíu milljónum króna verður varið í þá sálfræðiaðstoð.