Fimmtudagur 15. febrúar 2001

46. tbl. 5. árg.

Stjórnmálamenn fá ýmsar undarlegar hugmyndir. Margar þeirra eru bornar fram af tiltölulega góðum hug og er ætlað að reynast vel og verða mörgum til gagns. Oftar en ekki verður árangurinn þó minni en gert var ráð fyrir í upphafi og stundum enginn. Ósjaldan kemur þannig á daginn að hugmynd, sem kynnt hafði verið með stórum orðum og góðum vonum, reynist vera einskis nýt og aðeins sóun á tíma og peningum skattborgaranna. Aðrar hugmyndir eru svo þannig, að frá upphafi blasir við að þær eru vitleysa frá upphafi til enda.

Meirihlutanum í borgarstjórn Reykjavíkur hefur nú tekist að senda frá sér eina hugmynd af seinni gerðinni. Og hún er ekki aðeins hugmynd; borgarráð hefur ákveðið að efna til kosningar meðal borgarbúa um það áleitna spursmál hvort reykvískir kjósendur vilja í marsmánuði 2001 að eftir árið 2016 verði flugvöllur í Vatnsmýri eða hvort þeir kjósa heldur að eftir árið 2016 verði þar enginn flugvöllur. Og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir heldur því fram að ef þátttaka verður geysimikil í kosningunni og niðurstaðan verður afgerandi, þá verði sú borgarstjórn sem situr eftir rúmlega 15 ár bundin af þessari merku kosningu. Þessi kenning Ingibjargar er vægast sagt hæpin. Að minnsta kosti kom hún Páli Hreinssyni lagaprófessor – sem hefur þó atvinnu af því að kenna laganemum sveitarstjórnarrétt – gersamlega í opna skjöldu. Í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins í gær sagði Páll að það væri ljóst að borgarstjórn sú sem situr árið 2016 væri með öllu óbundin af niðurstöðum þessarar furðukosningar sem fram fer í mars 2001. Borgarstjórnin sem kjörin var árið 1998 getur bundið hendur sínar með kosningu af þessu tagi. En hún getur ekki bundið hendur þeirrar sem kjörin verður árið 2002. Og ekki heldur þeirrar sem kjörin verður árið 2006. Og ekki heldur þeirrar sem kjörin verður árið 2010. Og ekki heldur þeirrar sem kjörin verður árið 2014.

Væntanleg kosning um hugsanlegar skipulagsbreytingar sem ef til vill verður ráðist í eftir rúm fimmtán ár, er sem sagt hin sérkennilegasta hugmynd. Fullyrða má að kosningin verður á engan hátt bindandi svo borgarbúum er ekki boðið upp á að taka nokkra ákvörðun – þeir geta einungis sagt núverandi skoðun sína á einni tiltekinni spurningu. Þeim gefst hins vegar færi á að eyða peningum og auka opinber útgjöld. Kosningin er nefnilega ekki gefins heldur mun kosta skattgreiðendur rúmlega 30 milljónir króna. Þegar horft er til þess kostnaðar verður aukin ástæða til að spyrja hvers vegna skyndilega sé rokið til, nú í ársbyrjun 2001, og efnt til þessarar furðukosningar. Jafnvel þó menn vilji fá hugmyndir um skoðun núverandi borgarbúa á þessu máli – hvers vegna er þá ekki beðið í eitt ár og „kosningin“ látin fara fram samhliða borgarstjórnarkosningum? Varla heldur nokkur maður að nokkuð það eigi að gerast í þessum málum á þeim mánuðum sem eru til næstu sveitarstjórnarkosninga sem valdi því að þessi „kosning“ megi alls ekki bíða.

En kannski geta ekki allir beðið. Eins og menn vita er flugvöllurinn mikill þyrnir í augum nokkurra manna og hafa sumir þeirra haft hann á heilanum í mörg ár. Þannig eru til dæmis til kaffihúsarómantíkerar sem hafa komið sér upp persónulegum hugmyndum um það hvernig miðbær skuli vera í Reykjavík, og það sem ekki passar inn í þá mynd þeirra – það skal á brott. Slíkir menn munu sjálfsagt telja að örlög heimsins verði ráðin í væntanlegri atkvæðagreiðslu og geta líklega tæpast beðið „kjördags“. Handan víglínunnar verða svo landsbyggðarmenn, ámóta æstir, sem telja að öll byggð utan Ártúnsbrekku leggist af ef flugvöllurinn verður færður hænufet. Fyrir utan þessa tvo höfuðandstæðinga eru svo flestir venjulegir menn sem átta sig á því að í væntanlegri atkvæðagreiðslu mun ekki annað gerast en þetta venjulega: skattpeningum verður varið í ekki neitt.