Miðvikudagur 14. febrúar 2001

45. tbl. 5. árg.

Sem kunnugt er fór Guðmundur Árni Stefánsson varaforseti Alþingis af landi brott þegar hann taldi stefna í stjórnarskrárbrot með lagasetningu á Alþingi í stað þess að sækja þing og verja stjórnarskrána af kappi. Hafa menn að vonum velt því fyrir sér hvaða erindi var svo brýnt í útlöndum að kempan lét stjórnarskrána lönd og leið. Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor upplýsti það í Málinu á Skjá 1 í  fyrrakvöld að Guðmundur hafi farið á handboltaleik í Frakklandi með félögum sínum úr FH.

Fimleikafélag Hafnarfjarðar og Guðmundur Árni komu einnig við sögu í umræðum í Íslandi í dag á Stöð 2 í gær. Þar ræddu Guðmundur og Magnús Gunnarsson bæjarstjóri í Hafnarfirði útboð bæjarins á byggingu og rekstri skóla í Áslandi. Er Guðmundi mjög annt um að engir aðrir en hið opinbera reki starfsemi fyrir börn, allt annað sé „útboð á börnum“. Magnús benti Guðmundi hins vegar á að Guðmundur tæki sjálfur þátt í starfsemi fyrir þennan aldurshóp hjá FH – sem er ekki opinbert apparat.

Nú er ekki svo að skilja að Vef-Þjóðviljinn hafi saknað Guðmundar eða að ástæða sé til að ætla að umræður um lagafrumvörp og stjórnarskrá hefðu orðið að marki skynsamlegri þó að Guðmundur Árni hefði séð sér fært að vera þar nærstaddur. Ef satt skal segja, þá gæti Vef-Þjóðviljinn best trúað að Alþingi myndi einskis missa í virðingu sinni þó að þessi snjalli þingmaður yrði bara á vellinum framvegis. En þó lítil ástæða sé til sé til að erfa það við Guðmund að hann hafi kosið að vera fjarri góðu gamni þegar öryrkjamálum var ráðið til lykta þá má ef til vill fara fram á það við hann, að hann stilli sig um að kvarta yfir því að ekki hafi verið haft ýkja náið samráð við hann um þingstörfin þessa daga sem hann var á vellinum í Frakklandi. – Aftur á móti má hugsanlega reyna að læra af reynslunni og næst þegar stórir atburðir gerast, að hringja þá út og láta kalla hann upp í hálfleik.

Ögmundur Jónasson hefur einnig beitt sér gegn því að börn í Hafnarfirði verði gerð að „tilraunadýrum“ með því að bjóða byggingu og rekstur skólans út. Það er svo sem ekkert nýtt að Ögmundur bregðist ókvæða við þegar einkarekstur leysir ríkisrekstur af hólmi. Við hverja einkavæðingu og hvert útboð fækkar þeim sem eru skikkaðir til að greiða BSRB og öðrum stéttarfélögum opinberra starfsmanna félagsgjöld. Þessi félagsgjöld hafa m.a. verið misnotuð af BSRB til að gefa út áróðursrit og birta sjónvarpsauglýsingar að ógleymdum stórfelldum innflutningi erlendra sósíalista sem hér eru svo látnir halda áróðursfundi gegn einkarekstri.