Þriðjudagur 13. febrúar 2001

44. tbl. 5. árg.

Hvað ætli menn segðu, ef maður nokkur auglýsti eftir málara til að mála fyrir sig stofuvegginn grænan og þá brygðist félag málarameistara ókvæða við og segði að það væri skerðing á listrænu og faglegu frelsi málarans að hann fengi ekki að ákveða sjálfur hvaða lit hann setti á vegg mannsins? Kannski segðu menn ekki nokkurn skapaðan hlut. Að minnsta kosti hafa menn lítið sagt við þeirri gagnrýni sem Ríkisútvarpið hefur orðið fyrir undanfarið vegna þeirrar ákvörðunar sinnar að næsta lag sem það sendi til svo kallaðrar „söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva“ verði sungið á íslensku en ekki á öðru tungumáli. Félag tónskálda og textahöfunda mun hafa sent frá sér sérstaka ályktun vegna þessa máls og segja þar að það sé skerðing á „listrænu frelsi“ tónskáldsins að það fái ekki að ráða sjálft á hvaða máli væntanlegt lag verður sungið. Formaður þessa félags, Magnús Kjartansson, sagði svo í DV í gær að útvarpsráð hefði tekið upp „stjórnunarhætti gömlu Ráðstjórnarríkjanna“, svo menn sjá að hér er alvörumál á ferð. Fjölmargir aðrir merkir aðilar hafa einnig séð ástæðu til að hæðast sérstaklega að útvarpsráði fyrir ákvörðun þess, og þá sérstaklega að Merði Árnasyni sem hafði forgöngu um hana.

Nú er Vefþjóðviljinn lítill stuðningsmaður ríkisfjölmiðlunar og ekki er hann áhugasamur um opinber menningarafskipti. Og ekki um Mörð Árnason heldur, ef út í það er farið. Það er hins vegar annað mál að hann getur engan veginn tekið undir með þeim sem gagnrýna Ríkisútvarpið í þessu máli. Fyrst og fremst lítur Vefþjóðviljinn svo á, að það hljóti að vera alfarið mál verkkaupans – Ríkisútvarpsins – hvaða vöru hann vill kaupa. Ef enginn vill selja honum slíka vöru, nú þá verður bara ekkert úr viðskiptum. Það er ekki brotinn réttur á nokkrum manni þó honum sé ekki gefinn kostur á að selja vöru sem kaupandi vill ekki fá. Í öðru lagi, þá er erfitt að réttlæta það að opinber fjölmiðill leggi í kostnað og fyrirhöfn við að taka þátt í söngvakeppni í útlöndum. Vefþjóðviljinn fellst ekki á þau rök að það sé réttlætanlegt í þeim tilgangi að kynna íslenska menningu erlendis. En það eru þó rök, þó haldlítil séu. En að senda manneskju til útlanda á ríkiskostnað til að syngja svo á ensku – það hlýtur að vera enn furðulegra en hin hugmyndin.

Einhverjum kann að finnast að þessi undarlega deila sé smávægileg og komi varla mörgum við. Og það er að vissu leyti rétt. En hún má einnig minna menn á, að sífellt er sótt að samningafrelsi almennra borgara – og þó Ríkisútvarpið verði seint sakað um að vera „almennur borgari“, þá er það þó aðili sem vill fá að ráða því sjálfur hvaða vöru hann kaupir og hvaða vöru hann kaupir ekki. Á undanförnum árum hefur verið reynt að þrengja að borgurunum, skerða samningafrelsi þeirra og ráðstöfunarrétt yfir eigin eigum. Dæmin um það eru næstum óteljandi. Dómstólum hefur verið fengið vald til að ógilda og jafnvel breyta samningum sem fólk hefur gert sín í milli; maður sem selur öðrum manni fyrirtæki sitt, hann getur búist við því að einhver Guðmundur á Samkeppnisstofnun „ógildi“ söluna; alls kyns kenningum um „skyldu til samningsgerðar“ og „óréttmæta viðskiptahætti“ hefur verið dembt yfir það fólk sem enn stundar viðskipti í landinu og svo mætti lengi telja. Og þar sem fæstir velta slíkum atriðum fyrir sér þar til þeir lenda sjálfir í varðmönnum forræðishyggjunnar, hefur þessi þróun gengið mótspyrnulítið yfir landsmenn.

Og við henni verður að sporna.