Mánudagur 12. febrúar 2001

43. tbl. 5. árg.

Björn Bjarnason víkur að því í pistli á heimasíðu sinni í gær að þrátt fyrir að þingmenn Samfylkingarinnar hafi talið stjórnarskrárbrot yfirvofandi með setniningu laga um bætur til öryrkja hafi Guðmundur Árni Stefánsson fulltrúi fylkingarinnar í forsætisnefnd Alþingis og fyrrverandi heilbrigðis- og tryggingarmálaráðhera farið til útlanda þegar leið að „stjórnarskrárbrotinu“. Það má vissuleg velta því fyrir sér hvað þurfti til að halda Guðmundi Árna á landinu ef stjórnarskrárbrot dugar ekki.

Nú hefur verið sett upp heimasíða til heiðurs Greenpeace. Þar kemur meðal annars fram um 62% af útgjöldum samtakanna árið 1998 fór í yfirbyggingu eða alls um 70 milljónir dala. Þar er líka vitnað til viðtals við dr. Patrick Moore í New Scientist en Moore tók þátt í stofnun Greenpeace upp úr 1970 en sagði sig úr samtökunum um miðjan níunda aratuginn vegna virðingarleysis þeirra fyrir vísindum. Hann hafi reynt að miðla vísindalegri þekkingu sinni innan samtakanna og var að því tilefni gert lítið úr honum með uppnefninu „Dr. Truth“. Moore segir að Greenpeace sé nú „stjórnað af vinstrimönnum og öfgamönnum sem láti vísindin lönd og leið í baráttu sinni“. Á síðunni kemur jafnframt fram að félögum hafi fækkað jafnt og þétt í Greenpeace undanfarin ár og félagsgjöld dregist saman. Engu að síður leigðu samtökin nýlega fjallaþorp á Ítaliu fyrir toppana í samtökunum. Þessi flottheit minna helst á alþjóðlegu stórfyrirtækin sem Greenpeace gagnrýnir jafnan hvað mest. Þessi fækkun félaga hefur meðal annars leitt til sameiningar Greenpeace á Norðurlöndum og gert draum manna hér á landi um að komast á spenann að engu.
Við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2001 sá Alþingi hins vegar aumur á áhangendum Greenpeace hér á landi og styrkti samtök þeirra með fjárframlagi úr vösum skattgreiðenda. Alþingi þótti því við hæfi að styðja við bakið á þessum útsendurum Greenpeace þegar samtökin eru loksins að glata trúverðugleika sínum um allan heim. Ef til vill var þetta viðurkenning fyrir þær skráveifur sem Greenpeace hefur gert íslenskum sjávarútvegi.