Það er alltaf mikið að gerast hjá Samfylkingarmönnum. Um helgina héldu þeir sérstakt málþing þar sem kostir Samfylkingarmanna og gallar annarra voru ræddir fram og til baka. Meðal merkra ræðumanna var hinn lítilláti skörungur, Þórunn Sveinbjarnardóttir, sem situr á þingi fyrir Reyknesinga. Þórunn lét þess getið í ávarpi sínu að „kynslóð sín“ hefði aldrei á ævi sinni orðið vitni að öðrum eins valdhroka og Þórunn hefði séð frá stjórnvöldum í „öryrkjamálinu“. Hún bað menn hins vegar að hafa það hugfast „að þróun og staða lýðræðisins yrði aldrei rifin úr samhengi við alþjóðlega strauma“ og þurfa menn ekki að efast um að fundarmenn hafa tekið þessum upplýsingum af feginleik.
„… frambjóðandi sem kjósendur kusu bara alls ekki í eitt af öruggu sætunum, sá frambjóðandi hann var þrátt fyrir lýðræðislega niðurstöðu fluttur upp í öruggt sæti og situr nú ábúðarmikill á þingi og talar um þróun og stöðu lýðræðisins“ |
Eins og vænta mátti birti Morgunblaðið mikla frétt um þessa merku ræðu Þórunnar en því miður kom blaðið því ekki við að spyrja Þórunni nánar út í þetta. Urðu lesendur blaðsins því af þeirri ánægju að heyra hana útskýra í hverju þessi valdhroki hefði falist. Valdhroki sem var slíkur að „kynslóð Þórunnar Sveinbjarnardóttur“ hefði aldrei kynnst öðrum slíkum. Eftir að meirihluti Hæstaréttar kvað upp umtalaðan dóm sinn brást Alþingi þannig við að það dró verulega úr skerðingu örorkubóta og ríkið greiddi milljarð króna til þeirra öryrkja sem eiga tekjuháa maka. Stjórnvöld tóku hins vegar ekki undir þá fullyrðingu stjórnarandstöðunnar að Hæstiréttur hefði með dómi sínum lagt bann við tekjutengingu örorkubóta. Og eins og menn vita þá tekur Hæstiréttur ekki heldur undir þá túlkun stjórnarandstöðunnar á dómi Hæstaréttar.
Þetta var nú valdhrokinn. Ef þetta er mesti valdhroki og minnsta virðing fyrir lýðræði sem Þórunnarkynslóðin man eftir – ja þá er sú kynslóð líklega ekki sérstaklega minnug. Það væri nefnilega hægt að finna eitt og annað úr stjórnmálasögu samtímans sem færi nær því að vera valdhroki og fyrirlitning á lýðræði. Eigum við að taka dæmi af handahófi?
Fyrir síðustu kosningar bauð Samfylkingin fram í fyrsta skipti undir því nafni og sparaði ekki lúðrablásturinn. Samfylkingarmenn töluðu daginn út og inn um það hve þeir væru lýðræðislegir og efndu til prófkjörs hér og hvar því til sannindamerkis. Á Reykjanesi til dæmis, þar var eitt slíkt haldið og stuðningsmennirnir mættu á kjörstað og héldu að hinn nýi lýðræðislegi flokkur leyfði þeim að velja á listann. Niðurstöður prófkjörsins urðu þær að í efstu sætunum urðu Rannveig Guðmundsdóttir, Guðmundur Árni Stefánsson, Ágúst Einarsson og Sigríður Jóhannesdóttir. Samfylkingin fékk svo fjóra þingmenn á Reykjanesi – en það urðu nú ekki þessi fjögur sem höfðu verið kosin í prófkjörinu. Nei það var sko búið að semja um það fyrirfram að listinn yrði ekki endilega eins og kjósendur vildu.
Og þrátt fyrir vilja kjósenda í prófkjörinu var listanum breytt. Ágúst Einarsson sem varð í þriðja sæti, hann var færður niður úr því örugga sæti. Sigríður sem var fjórða, hún var sett í þriðja sæti. Og frambjóðandi sem kjósendur kusu bara alls ekki í eitt af öruggu sætunum, sá frambjóðandi hann var þrátt fyrir lýðræðislega niðurstöðu fluttur upp í öruggt sæti og situr nú ábúðarmikill á þingi og talar um þróun og stöðu lýðræðisins.
Það þarf svo varla að taka það fram að þessi frambjóðandi er einmitt sérfræðingur Samfylkingarinnar í lýðræðismálum, fulltrúi nýrrar kynslóðar… Þórunn Sveinbjarnardóttir.