Laugardagur 10. febrúar 2001

41. tbl. 5. árg.

Í þættinum Spéspeglinum í Ríkisútvarpinu í gær var rætt við borgarfulltrúana Ólaf F. Magnússon og Hrannar B. Arnarsson um mengun frá umferð í Reykjavík. Borgarfulltrúarnir sitja báðir í umhverfis- og heilbrigðisnefnd Reykjavíkur en nefndin hefur orðið sér til skammar með nokkurra daga bili að undanförnu. Fyrst hljóp hún af stað með hræðsluáróður gegn innflutningi á írsku nautakjöri en fá dæmi eru um að kjöt í íslenskum verslunum hafi verið betur rannsakað en einmitt þetta kjöt. Þá var ráðist að yfirdýralækni og hann sakaður um siðleysi og lögleysu vegna innflutnings á írska kjötinu en við nánari skoðun kom í ljós að hann hafði farið að lögum. Nefndin lét ekki þar við sitja heldur fordæmdi sölu á hollensku kjöti í Nóatúni en verslunarstjóri Nóatúns segir þetta kjöt ekki hafa verið til sölu þar. Í gær fengu nefndarmenn og fleiri athyglissjúkir borgarfulltrúar svo enn eitt færi á að láta ljós sitt skína þegar seigfljótandi olía rann úr tanki í Örfirisey. Var sá atburður nefndur „umhverfisslys“ og „martröð“ þótt öll olían hafi verið hreinsuð upp og enginn skaði orðið á umhverfinu.

En ástæða þess að rætt var við Ólaf og Hrannar í Spéspeglinum var mengun frá umferð í Reykjavík. Eins og menn hafa væntanlega tekið eftir hefur rykmengun verið með mesta móti í borginni í vetrarstillunum að undanförnu. Báðir voru þeir fylgjandi því að „stórefla almenningssamgöngur“ sem lið í því að minnka mengun í borginni. Þeir áttu þó ekki við að bæta aðstöðu fyrir þær samgöngur sem almenningur notar þ.e. einkabílinn heldur strætó sem fáir nota og jafnvel lestar. Strætó er þó meiri mengunarvaldur en einkabíllinn, ekki síst þegar kemur að rykmengun. Strætó gengur fyrir dieselolíu sem veldur meiri rykmengun en þær bensínvélar sem eru í flestum einkabílum,ekki síst nýlegum bílum. Strætó þyrlar einnig upp því ryki sem einkabílar ýta út í vegarkanta þar sem hann treðst um götur borgarinnar. Hann veldur einnig óþarfa töfum í umferðinni með stoppum sínum en slík stopp auka jafnframt útblástursmengun. Helsta ástæðan fyrir ryki frá umferðinni er þó léleg umhirða gatna í borginni. Það væri nær eð eyða því fé sem fer í niðurgreiðslur á illa nýttum strætisvögnum í betri götur og hreinsun á þeim.

Það þarf svo vart að taka það fram að Ólafur og Hrannar nota báðir einkabíl en Ólafur stærði sig raunar af því að senda börnin sín í strætó!