Föstudagur 9. febrúar 2001

40. tbl. 5. árg.

Þeir höfðust ólíkt að Bill Clinton og George W. Bush í gær. Bush kynnti tillögur sínar um að skila skattgreiðendum því sem þeir réttilega eiga með því að lækka skatta. Á sama tíma voru Clinton hjónin að skila hluta af þeim húsgögnum sem þau tóku „óvart“ með sér úr Hvíta húsinu. Þau hafa einnig ákveðið að greiða 7 milljónir króna fyrir það glys og glingur sem þau tóku með sér og ætla ekki að skila en alls mun góssið sem þau tóku vera metið á um 16 milljónir króna.

Á meðan Clinton hjónin grétu yfir því að hafa greitt hálfvirði fyrir stereogræjurnar og persnesku motturnar sem þau stálu óvart kynnti Bush skattalækkunina með því að segja: Við þurfum skattalækkun – við þurftum hana reyndar í gær. Tekjuskattshlutföll verða 10, 15, 25 og 33% gangi tillögur Bush eftir og eignaskattar verða einnig lækkaðir. Hæsta tekjuskattshlutfall einstaklinga nú er 39% en það lægsta 15%. (Hæsta hlutfallið hér er tæp 46% sem leggst á tekjur yfir heilar 280 þúsund krónur á mánuði en nú hefur þingfarakaupið hækkað svo von er á samsvarandi hækkun á hátekjuskattsmörkunum). Bush hefur verið gagnrýndur fyrir að lækka skatthlutföll jafnt yfir línuna þar sem skattar lækki þá mest í krónum talið á þá tekjuhæstu. Hafa menn talað um að hinir ríku hagnist mest á þessari skattalækkun þótt það sé afar undarlegt að tala um hagnað manns þegar minna er hirt af eignum hans en áður. Nær væri að tala um að tap hans hefði minnkað.

Á sama hátt var því haldið fram að ríkisstjórn Íslands hefði fært jeppaeigendum „gjöf“ þegar skattar voru lækkaðir á stóra og örugga bíla í fyrra. Hið rétta er vitanlega að ríkið hirðir nú minna af kaupendum stórra bíla en áður og fleiri geta eignast slíkan bíl.