Fimmtudagur 8. febrúar 2001

39. tbl. 5. árg.

Ekki átti Vef-Þjóðviljinn von á því að fjalla um það vandamál sem sumir glíma við í sálartetri sínu og hefur verið nefnt kvenfyrirlitning. Ýmsir andstæðingar atvinnufrelsis hljóta þó að vera þjakaðir af þessu vandamáli ef tekið er mið af heiftinni í baráttu þeirra gegn erótískri dansskemmtun hér á landi. Ef marka má frétt í DV í gær þarf lítið til að koma til þess að lögregluvaldi sé beitt gegn erlendum konum sem hafa af því atvinnu að fækka fötum á skipulegan hátt. Á baksíðu DV er því lýst að framkvæmd hafi verið nákvæm líkamsleit á konum sem ölvaður maður hafði sakað um að hafa stolið peningum af honum. Miðað við lýsinguna í fréttinni er fráleitt hægt að telja að um rökstuddan grun um glæp hafi verið að ræða í þessu tilviki; drukkinn Íslendingur, eiginkona hans dansmærin,  hærri peningaupphæð en almennt kemst fyrir í rassvasa og fimm dansandi konur til viðbótar. Að sögn veitingahússeigandans kom lögreglan að beiðni hans til að skakka leikinn en sá þann kost vænstan að framkvæma líkamsleit á dönsurunum á þann hátt að fæstir Íslendingar hefðu látið sér það í léttu rúmi liggja. Vef-Þjóðviljinn á ekki erfitt með að trúa fréttinni því umræða undanfarinna missera um nektardansstaðina og starfsfólk þess er á þann veg að augljóst er að sumir telja þær stúlkur sem hingað koma til að stunda nektardans hafa hvorki lagalegan né siðferðislegan rétt. Kvenfyrirlitning er einkennandi fyrir baráttu andstæðinga hina svokölluðu nektarstaða.

Stígamót hafa verið ágætt dæmi um einkaframkvæmd á sviði heilbrigðisþjónustu og hafa notið trausts í skjóli markvissrar vinnu sinnar og þekkingu í tengslum við ákveðna tegunda glæpa. Á hinn bóginn hafa samtökin látið teyma sig út í baráttu gegn nektardansstöðum. Hugsanlega hafa samtökin verið beitt þrýstingi utan frá en það hefur til dæmis lengi verið liður í baráttu svokallaðra femínista að tengja vændi og nektardansa saman. Starfsmenn Stígamóta hafa sótt andnektarþing í Svíþjóð þar sem hrópað var að nektardansar og vændi séu eitt og hið sama. Nú er það auðvitað sjálfstætt mál sem þarfnast skoðunar hvað þessi niðurstaða á að leiða af sér. Er hún góð eða vond? Stígamót hafa hins vegar ákveðið að þessi skoðun af sænska málþinginu sé tól í baráttunni gegn nektarstöðum á Íslandi. Hafa starfsmenn Stígamóta kallað erlenda nektardansarar sem hér starfa þræla og mellur. Með þessu eru Stígamót að stíga út fyrir sitt annars ágæta starfssvið sem ætti að takmarkast við baráttuna gegn kynferðisglæpum og vinnu vegna afleiðinga þeirra. Um leið sýna þau sjálfsákvörðunarrétti kvenna fullkomna fyrirlitningu. Opinberir aðilar með lögregluvald mega ekki við slíkri hvatningu.