Miðvikudagur 7. febrúar 2001

38. tbl. 5. árg.

Samkeppnisstofnun vinnur að því leynt og ljóst að hindra eðlilega atvinnustarfsemi á landinu. Að þessu sinni þvælist hún fyrir samruna tveggja keðja lyfjaverslana, en fyrir skömmu bannaði hún tilraunir til hagræðingar í bankakerfinu og á prentmarkaði. Þessi stofnun, sem áður bar réttnefnið Verðlagsstofnun, lítur á það sem sitt helsta hlutverk að koma í veg fyrir að eðlilegur fyrirtækjarekstur geti þrifist hér á landi. Hagræðing á lyfjamarkaðnum hlaut því aðeins náð fyrir augum hinna alvitru sérfræðinga á Samkeppnisstofnun að fyrirtækin sem sameinuðust seldu 5 af 14 verslunum sínum. Já, þeim var gert skylt að selja rúman þriðjung verslana sinna svo starfsmönnum Samkeppnisstofnunar væri fullnægt. Og ekki nóg með það, starfsmenn Samkeppnisstofnunar eru líka þeirrar skoðunar að sameinað lyfjafyrirtækið skuli selja þessar 5 verslanir í einu lagi. Þetta teldu ýmsir allnokkrar hömlur á atvinnustarfsemi þessa sameinaða fyrirtækis, en Samkeppnisstofnun er annarrar skoðunar. Hún telur nauðsynlegt að banna fyrirtækinu að kaupa nokkra lyfjaverslun á höfuðborgarsvæðinu nema með samþykki eiganda markaðshagkerfisins, Samkeppnisstofnunar. Auk heldur mælir hún fyrir um, að hið nýja fyrirtæki skuli ekki heimilt að opna lyfjaverslun í húsnæði þar sem aðeins ein lyfjaverslun verður til staðar. Í úrskurði málsins féll niður ein setning, en þar átti að standa: „Guðmundur Sigurðsson, forstöðumaður samkeppnissviðs Verðlagsstofnunar, skal taka allar ákvarðanir sem máli kunna að skipta fyrir hið sameinaða lyfsölufyrirtæki.“

Furðulegt má telja, fyrst Samkeppnisstofnun veit allt best sem að íslensku atvinnulífi snýr, að hún skuli ekki fengin til að taka að sér rekstur allra fyrirtækja landsins. Til hvers að láta einkaaðila dunda af hálfgerðri vankunnáttu við rekstur þegar svo mikil þekking er saman komin í einni óskeikulli ríkisstofnun? Samkeppnisstofnun veit hvernig allir markaðir eru og hver þróun þeirra verður. Stofnunin veit hver er best til þess fallinn að framleiða hvaða vöru og bjóða hvaða þjónustu og hún veit þar að auki hvert rétt verð er fyrir vöruna eða þjónustuna. Hún veit í stuttu máli allt sem einhverju skiptir við framleiðslu á vöru og þjónustu. Henni er því ekkert að vanbúnaði að stöðva endanlega starfsemi hins frjálsa markaðar og taka alla framleiðslu í eigin hendur.