Þriðjudagur 6. febrúar 2001

37. tbl. 5. árg.

Á sjöunda áratug síðustu aldar tóku margir bandarískir háskólastúdentar mjög að færa sig upp á skaftið. Ekki var það nú svo að þeir hæfust til stóraukins menntaframa eða áður óþekktra vísindasigra heldur fóru þeir að einbeita sér að pólitískri baráttu og af meiri hörku en fólk hafði átt að venjast. Verkföll og átök urðu algeng í háskólunum og fæstir námsmannaleiðtoga fóru í felur með þá skoðun sína að þeir sjálfir væru á talsvert hærra siðferðisstigi en hinn venjulegi bandaríski borgari. Sá margníddi maður var á þessum árum gjarnan nefndur smáborgari eða ríkisbubbi nema hvort tveggja væri, og töldu hinir „réttsýnustu“ í hópi námsmanna að flest óréttlæti heimsins mætti rekja til þessa vonda manns.

Námsmannahreyfingunum óx mjög fiskur um hrygg og stjórnvöld vissu sjaldnast hvernig taka bæri á þeim en flestir stjórnmálamenn forðuðust sem heitan eldinn að lenda opinberlega í átökum við hin áhrifamiklu og áberandi samtök. Flestir ríkisstjórar Bandaríkjanna horfðu til dæmis aðgerðalausir upp á uppþot og verkföll og létu það viðgangast að ofstopamenn stæðu í vegi fyrir þeim mikla fjölda stúdenta sem ekkert vildi af baráttumönnunum vita. Á þessu voru þó undantekningar og eitt ríki skar sig sérstaklega úr. Þar sat ríkisstjóri sem hiklaust bauð forystumönnum stúdentahreyfinganna birginn, vefengdi málflutning þeirra einarðlega og lét þá ekki komast upp með að taka völdin í skólunum. Ríkisstjórinn ávann sér virðingu manna um öll Bandaríkin en hann ávann sér einnig hatur og heift stúdentanna sem enst hefur fram á þennan dag. Þeir sem virkastir voru í stúdentabaráttu sjöunda áratugarins eru nú sagnfræðingar, blaðamenn og „stjórnmálaskýrendur“ og þeir setja sig sjaldan úr færi að reyna að gera upp reikningana við sinn forna fjanda. Hann heitir Ronald Wilson Reagan og í dag eru níutíu ár liðin frá fæðingu hans.

Ronald Reagan varð síðar einn ágætasti og vanmetnasti forseti sem Bandaríkjamenn hafa eignast. Víða um heim þykir ennþá sjálfsagt mál og samkvæmisleikur að gera sem minnst úr Reagan og lífsstarfi hans. Vinstri intelligensían hefur auðvitað aldrei getað séð hann í friði og vandfundinn er sá vinstri sinnaði menningarviti sem ekki er reiðubúinn til að lýsa því yfir að Reagan hafi verið stríðsóður auli sem aldrei hefði átt að komast til hærri metorða en að leika stórt hlutverk í Bedtime for Bonzo. Intelligensían veit sem er að Reagan hvorki tilheyrði henni né kærði sig á nokkurn hátt um hana eða hennar álit. Og það sem meira var, Reagan var áratugum saman nokkurn veginn sá eini í hópi stjórnmálamanna sem ógnaði veldi hennar og benti á hve sjálfbirgingur hennar var innistæðulaus.

Ronald Reagan var á flestan hátt óvenjulegur stjórnmálamaður. Þeir flokksbræður hans sem setið höfðu á forsetastóli áratugina á undan honum, Eisenhower, Nixon og Ford, voru til dæmis allir annars eðlis. Þeir höfðu allir áhyggjur af því hve ríkiskerfið var orðið þungt í vöfum og óskilvirkt og þeir vildu endurbæta það, ná kostnaði niður og gera kerfið einfaldara. Reagan hins vegar, hann beinlínis efaðist um og vefengdi hlutverk ríkisins við að auka „velferð“ þegnanna. Hann var áratugum saman talsmaður þess að ríkið ætti sem mest að sjá borgarana í friði og treysta þeim sjálfum til að leita hamingjunnar, hverjum með þeim hætti sem hann kysi, svo lengi sem þeir gengju ekki á sama rétt annars. Hann hafnaði því hins vegar ekki að ríkið hjálpaði þeim sem ekki gætu hjálpað sér sjálfir en vildi að hjálpin beindist að því að gera menn sjálfbjarga. Þá var hann eins og menn vita þeirrar skoðunar að tryggja bæri öryggi borgaranna og að sterkar landvarnir væru Bandaríkjunum nauðsynlegar.

Reagan hafði einnig sínar skoðanir á skattamálum. Hann vildi að borgarnir fengju að halda sem mestu eftir af tekjum sínum en að ríkið stillti sig sem mest um að skattleggja þá. Strax á ríkisstjóraárum Reagans kom svo í ljós hvað hann taldi gera ætti við fjárlagaafgang: Skila honum aftur til þegnanna. Ráðgjafar Reagans og félagar hans í hópi stjórnmálamanna vissu fyrst ekki hvaðan á þá stóð veðrið þegar ríkisstjórinn hélt því fram að fjárlagaafgangi ætti að skila aftur í stað þess að finna fyrir ný og „verðug framfaramál“ sem „allir“ hefðu getað orðið ánægðir með. En Reagan stóð fastur á sínu eins og löngum síðar og þegar hann síðar varð forseti Bandaríkjanna stóð hann fyrir myndarlegri skattalækkun sem átti mikinn þátt í þeirri uppsveiflu sem síðar varð í landinu og sem Bandaríkjamenn njóta enn þann dag í dag. Í skattamálum sem mörgum öðrum málum mættu aðrir stjórnmálamenn margt af Ronald Reagan læra og sjálfsagt er engum þeirra gert rangt til þó í því sambandi sé nafn Geirs H. Haardes sérstaklega nefnt.

Eins og áður sagði hafa vinstri menn og almennir menningarvitar árum saman reynt að bera Ronald Reagan sem verst vitni og draga upp þá mynd af honum að hann hafi verið hinn ómerkilegasti forseti. Ekki eru tök á að reifa hér allar þær missagnir sem hver þeirra tekur upp eftir öðrum í þá átt. Fyrir þremur árum vék Vefþjóðviljinn að nokkrum þeirra og leyfir hann sér að vísa til þeirrar umfjöllunar hér. Þeir sem muna lengur en klukkustund aftur í tímann muna auðvitað hversu vel Reagan reyndist. Þeir muna hvernig Reagan breytti viðhorfum manna til hins opinbera og þeir muna hvern þátt hann átti í því að koma hjólum efnahagslífsins á stað aftur. Og ekki síst muna þeir hvernig staðfesta hans í varnarmálum – þvert ofan í þaulskipulagðar úrtöluraddir vinstri manna um allan heim – flýtti fyrir falli Sovétríkjanna og frelsun íbúa Austur-Evrópu. Fyrir allt þetta og margt annað telja þeir sér óhætt að hugsa til Reagans af virðingu á níræðisafmæli hans.