Ein af þeim röksemdum sem oft hefur verið notuð fyrir lægra skatthlutfalli er að með því náist inn hærri skatttekjur. Það er svo sem út af fyrir sig vafasamt að telja einhverri aðgerð það til tekna að hún skili ríkinu auknum tekjum, en það er í það minnsta staðreynd að skattalækkun leiðir oft til hærri skatttekna. Ástæðan er sú að undanskot aukast með hækkandi skatthlutföllum og þegar skatthlutföllin eru orðin nægilega há er hvatinn til undanskota farinn að vega þyngra en viljinn til að fara að lögum. Í nýjasta tölublaði The Economist er birt súlurit sem sýnir umfang neðanjarðarhagkerfisins í hinum ýmsu löndum og þar er greinileg fylgni á milli hárra skatta og umsvifamikils neðanjarðarhagkerfis. The Economist segir að neðanjarðarhagkerfið, sem hlutfall af landsframleiðslu, hafi vaxið í öllum OECD-löndum á árunum 1989 til 1999. Tímaritið dregur þá ályktun að hækkandi skattar og auknar byrðar félagslega kerfisins, til viðbótar við aukinn fjölda reglugerða hins opinbera, virðist vera að ryðja burt hefðbundna hagkerfinu.
Þetta er raunar þekkt vandamál úr hagsögunni. Fyrir austan járntjaldið var hefðbundna hagkerfið handónýtt, en í staðinn þreifst neðanjarðarhagkerfið oft með ágætum. Er jafnvel talið að neðanjarðarhagkerfið hafi einmitt oft á tíðum haldið þessum þjóðfélögum gangandi og að án þess hefðu þau hrunið miklu fyrr. En þar með er ekki sagt að heppilegt sé að atvinnustarfsemi færist bara undir yfirborðið, því að viðskiptakostnaður er alltaf mun meiri þar en ástæða væri til ef allt væri með felldu og starfsemin uppi á yfirborðinu. Þetta þýðir meiri kostnað og minni hagkvæmni, en óhagkvæmni er alltaf óhjákvæmilegur fylgifiskur skattheimtu. Því hærri sem skattheimtan er, þeim mun meiri er óhagkvæmnin og sóunin. Þetta er ein af mörgum ástæðum þess að nauðsynlegt er að lækka skatta hér á landi.
Nú geta íslenskir sjónvarpsáhorfendur fylgst með fréttaþættinum 20/20 frá ABC sjónvarpsstöðinni. Skjár 1 sýnir þáttinn á sunnudagskvöldum. Það er ekki síst fréttamaðurinn John Stossel sem vert að fylgjast með og „Give me a break!“ fréttaskýringar hans en hann hefur það umfram marga aðra fréttamenn að sjá fleiri hliðar á málunum en stjórnmálamenn kæra sig um. Stossel sér að góðverk á vegum hins opinbera eru gerð á kostnað einhvers sem er ekki að gera góðverk fyrir sama fé á meðan. Hann áttar sig á því að góðverkin hafa afleiðingar fyrir fleiri en þá sem njóta þeirra. Hann setur spurningarmerki við ýmis lög og reglur sem eiga að vernda almenning en eru oft óþörf eða skaðleg. Síðast en ekki síst tekur hann ekki öllum pólitískum rétttrúnaði sem sjálfsögðum hlut. Fréttaskýringar hans eru því kærkomin tilbreyting frá því uppgerðar hlutleysi sem alltof margir fréttamenn skýla sér á bakvið.