Landsbyggðarmenn eru margir hverjir þeirrar skoðunar að beita eigi opinberum aðgerðum til að stuðla að því að fólk búi frekar úti á landi en á höfuðborgarsvæðinu. Nú síðast hvatti Einar Mathiesen, sveitarstjóri í Búðardal og nágrenni, til þess að tekjuskattur landsbyggðarbúa yrði hafður lægri en þeirra sem hokra fyrir sunnan. Einar telur að lægri skattar kunni að freista margra og að þetta gæti orðið til þess að menn flyttu út á land. Ástæða er til að vekja athygli á þessari hugmynd og taka undir hana að vissu leyti. Eins og menn vita þá rennur aðeins hluti svokallaðs tekjuskatts til ríkisins en stór hluti rennur til sveitarfélaganna í formi útsvars. Sveitarfélögin taka sjálf ákvarðanir um útsvör og ef margar sveitarstjórnir taka nú sveitarstjórann á orðinu og lækka útsvörin, þá aukast ráðstöfunartekjur borgaranna og þeir munu eiga auðveldara með að búa þar sem þeir helst kjósa.
Eins og menn vita þá standa ýmis sveitarfélög í því að „veita þjónustu“ og ýmsir óttast að ef þau drægju úr henni þá myndi fólk flytja umvörpum brott. Ekki er endilega sennilegt að slíkur ótti sé á rökum reistur. Það fé sem sveitarfélögin „veita“ til alls kyns mála, kemur ekki af himnum ofan. Það kemur – eins og flestir munu viðurkenna í orði kveðnu – frá skattgreiðendum. Og þegar opinber aðili eyðir einni krónu til að styrkja málefni sem honum er þóknanlegt, þá hafa skattgreiðendur einni krónu minna til að verja til þeirra málefna sem þeim eru þóknanleg.
Auðvitað má deila um gagnsemi þeirra málefna sem í húfi eru hverju sinni. Sveitarfélagið vill ef til vill styrkja íþróttafélagið, karlakórinn og skrifstofu jafnréttisfulltrúans en skattgreiðandinn vill ef til vill frekar kaupa sér mat, húsnæði og bifreið. Kannski vill skattgreiðandinn helst eitthvað sem sveitarstjórnarmönnum þykir bara alls nógu menningarlegt og fínt. Hann vill kannski kaupa sér bjór eða fara á völlinn en valdhafarnir helst halda myndlistarsýningar og tónleika. Þeir sem líta misjöfnum augum á öll þessi „málefni“ mættu hins vegar að ósekju hugsa oftar um eitt þýðingarmikið atriði. Skattgreiðandinn er að eyða eigin peningum. Hið opinbera ekki.