Frekja er meðal þess sem Jón Viðar Jónsson, leikhúsfræðingur, fjallar um í grein sem hann ritaði í Morgunblaðið síðast liðinn laugardag. Jón Viðar segir kröfur þeirra sem standa að Leikfélagi Íslands „um tugmilljóna styrki af almannafé bera vott um slíka frekju að annað eins hefur sjaldan sést í íslensku leikhúsi“. Við lestur þessara orða leikhúsfræðingsins kynni einhverjum að detta í hug að honum finnist frekja að heimta skattfé til að reka leikhús. Svo er þó ekki, í niðurlagi greinarinnar kemur í ljós að ástæða þess að Jón Viðar hefur á móti kröfugerð fyrrnefnds leikhúss er að leikhúsfólk þurfi að „standa saman um að knýja stjórnvöld til að leysa vanda sjálfstæðu leikhúsanna á viðunandi hátt“. Frekjan er sum sé í lagi ef hún er nógu yfirgengileg og allir taka sig saman um hana. Heimti einn margar milljónir fyrir sig er það vond frekja, en frekjan er góð ef margir heimta enn fleiri milljónir fyrir sig og aðra. Óvíst er að skattgreiðendur, sem eru þolendur allrar þessarar frekju, séu nokkuð sáttari við frekju Jóns Viðars en frekju aðstandenda Leikfélags Íslands.
Önnur frekja og ekki minni birtist í því að stjórn Listaháskóla Íslands skuli ekki sætta sig við það hús sem henni hefur verið fengið undir starfsemi skólans. Stjórnin hefur óskað þess af borgaryfirvöldum að bygging skólans fáist reist á Klambratúni við hlið Kjarvalsstaða en skólinn hefur nýlega fengið stórhýsi á Laugarnesi undir starfsemi sína. Það nægir ekki þegar frekja er annars vegar. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir segir að verði ráðist í þetta verkefni verði að gera það af metnaði, en sem kunnugt er þýða orðin „metnaður“ og „stórhugur“ í munni stjórnmálamanna að eyða skuli stórfé í viðkomandi mál. Svo fylgja með innantóm orð eins og ávallt þegar eyða skal fjármunum skattgreiðenda í óþarfa og dreifa þarf athyglinni frá kjarna málsins. Ingibjörg Sólrún segir til að mynda að þetta muni skapa mótvægi við listastarfsemina í Kvosinni, rétt eins og eitthvað ímyndað „mótvægi“ skipti einhverju máli. Svo segir hún að þetta „innrammi“ miðborgina, hvað sem það nú þýðir. Fróðlegt væri að vita hvers vegna einn listaháskóli við hlið Kjarvalsstaða „innrammar“ miðborgina. Eitt er þó rétt af því sem Ingibjörg nefnir sem rökstuðning fyrir þessari byggingu, því hún segir: „Mér finnst þetta gefa ýmsa möguleika fyrir túnið…“ Þetta er vissulega alveg laukrétt, túnið fær þann óvænta og skemmtilega möguleika að verða rifið upp svo hið óþarfa hús megi rísa.