Vefþjóðviljinn hefur af og til séð ástæðu til þess að minna menn á að frelsið glatast sjaldnast allt í einu. Að forræðishyggjumenn reyni gjarnan að skerða frelsi borgaranna í mörgum skömmtum en gæti þess að hver og einn verði nægilega vægur til þess að fáir verði til þess að snúast til varna. En þó mörg skref forræðishyggjumanna séu stutt þá er ekki þar með sagt að þeir láti sér það alltaf nægja. Á dögunum lagði heilbrigðisráðherra fram frumvarp til breytinga á lögum um tóbaksvarnir og þar hafa stjórnlyndir menn aldeilis náð sér á strik. Menn þurfa ekki að lesa lengi í því frumvarpi eða greinargerðinni sem fylgir því, til þess að sjá að ört styttist í það að svo kölluðum „frjálsum borgurum“ verður með öllu bannað að neyta tóbaks.
„…sá maður sem fer inn í húsnæði annars manns … hefur einfaldlega afsalað sér „rétti sínum til að þurfa ekki að anda að sér lofti sem er mengað tóbaksreyk af völdum annarra“.“ |
Nú á nefnilega að láta sverfa til stáls. Höfundar frumvarpsins eru greinilega ákafir og æstir andstæðingar tóbaksneyslu annarra og vilja helst ekki að annað fólk fái að neyta tóbaks. Greinargerðin sem fylgir frumvarpinu ber þess merki að höfundum er töluvert niðri fyrir og virðast þeir telja málstað sinn svo ágætan að þeir hafi fyllstu heimildir til að skipta sér af því hvað má í annarra húsum og hvað ekki. Eignarréttur og athafnafrelsi virðast ekki í neinum sérstökum metum hjá frumvarpshöfundum en bönn, skorður og fyrirmæli hins vegar töfraorð í þeirra huga. Og kannski var ekki við öðru að búast þegar á það er litið að frumvarpið er samið af tóbaksvarnarnefnd.
Eitt lykilatriði nýja frumvarpsins er að nú skal viðurkenna sérstakan „rétt“ hvers manns til reyklauss lofts. „Það hljómar nú kannski ekki svo illa“, hugsar kannski einhver, „á ég kannski ekki rétt á því að enginn reyki nálægt mér?“ Þegar svo er spurt þá er ástæða til að staldra aðeins við. Menn eiga ekki endilega rétt á því að andrúmsloftið sé svona og svona þar sem þeir eru staddir. Hver maður ætti til dæmis að mega ráða því hvernig farið er með loftið heima hjá honum. Hann ætti til dæmis að mega banna þar reykingar og hann ætti einnig að mega reykja þar ef hann svo kýs. Og engu skiptir þó einhver komi í heimsókn, gesturinn ætti enga heimtingu á að húsráðandinn reykti ekki. Ef gesturinn vildi ekki reykingar í návist sinni, nú þá gæti hann bara farið heim.
Vefþjóðviljinn heldur því fram að húsráðandi eigi allt vald um það hvort leyfðar eru reykingar í húsi hans eða ekki. Vefþjóðviljinn leyfir sér að segja að slíkt ákvörðunarvald sé beinlínis fólgið í eignarrétti hans og ef það er skert þá sé vandséð hvað hið opinbera getur ekki bannað mönnum að hafast að. Höfundar hins nýja frumvarps hafa hins vegar litlar áhyggjur af eignarrétti húseigenda. Samkvæmt frumvarpinu verður til dæmis bannað að reykja á skemmtistöðum, í „þjónusturými stofnana, fyrirtækja og félagasamtaka“, og þar sem menn stunda íþróttir eða annað tómstundastarf. Frumvarpshöfundum er algerlega sama hvað eigendum húsnæðisins finnst. Þeim er algerlega sama hvað eigendum fyrirtækjanna finnst. Það á að verða óheimilt á Íslandi að reka krá þar sem gestirnir mega reykja að vild. Það mætti ætla að frumvarpshöfundarnir haldi að fólk sé neytt til að sækja þessa staði. Að fólk sé flutt með valdi á krárnar, eða í „þjónusturými stofnana, fyrirtækja og félagasamtaka“.
Hér er á ferð óbeisluð forræðishyggja sem boðuð er af meiri hörku, ósvífni og fyrirlitningu á borgurunum en menn eiga almennt að venjast. Undir fagurgala eins og þeim að menn eigi sérstakan rétt „til að þurfa ekki að anda að sér lofti sem er mengað tóbaksreyk af völdum annarra“ er boðuð stórfelld skerðing á athafnafrelsi almennra borgara. Vefþjóðviljinn vill benda frumvarpshöfundum og velviljuðum forræðishyggjumönnum á það, að sá maður sem fer inn í húsnæði annars manns – hvort sem það er íbúðarhús, skemmtistaður eða annað fyrirtæki – sem hefur ákveðið að leyfa tóbaksreykingar í húsi sínu, sá maður hefur einfaldlega afsalað sér „rétti sínum til að þurfa ekki að anda að sér lofti sem er mengað tóbaksreyk af völdum annarra“. Ef hann vill ekki þola tóbaksreykinn á hann það einfalda úrræði að fara bara út.
Hinar ofstækisfullu tilraunir til að skerða eignarrétt húseigenda eru auðvitað ekki það eina sem frumvarpshöfundar hyggjast fyrir. Ein bannreglan á til dæmis að hljóða svo að bannað sé „að flytja inn, framleiða og selja fínkornótt neftóbak og allt munntóbak, að undanskildu skrotóbaki“. Önnur regla verður um að sérstakt leyfi þurfi til þess að selja tóbak og að þeir sem það leyfi fái verði að gæta þess að tóbakið verði „ekki sýnilegt“ á sölustaðnum. Þá vilja frumvarpshöfundar setja í lög að enginn yngri en 18 ára fái að selja tóbak og eftir að þingmenn hafa afgreitt þá glæsilegu tillögu geta ungmenni undir þeim aldri hætt að velta fyrir sér möguleikum á því að fá vinnu við afgreiðslustörf í verslunum eða söluturnum. Sautján ára gamall maður sem er að læra til þjóns, hann mætti ekki heldur færa matargesti vindil. Sem yrði kannski lítið vandamál því gesturinn mætti hvort sem er varla reykja vindilinn.
Þær tillögur sem felast í frumvarpinu og hugsunin á bak við þær eru ekki séríslenskt vandamál. Víða um heim hafa velviljaðir og tilfinningasamir ákafamenn náð að greiða athafnafrelsi einstaklingsins þung högg undir merkjum „almannaheilla“ og „heilsuverndar“. Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér þessa þróun gætu gert margt verra en lesa metsölubók Bandaríkjamannsins Jacobs Sullums, For your own good – The anti-smoking crusade and the tyranny of public health sem út kom fyrir tveimur árum. Þar rekur Sullum hvernig baráttan gegn tóbaksnotkun annarra hefur verið háð undanfarnar aldir og hversu hart er sótt gegn frelsi einstaklingsins til að taka sjálfur ákvarðanir um eigið líf. Bókin fæst meðal annars hjá Laissez Faire Books.