Botnleðja er vinsæl hljómsveit hér á landi og þeim sem hafa hlustað á plötur þeirra kemur það ekki á óvart. Þeir sem keyptu nýju plötu sveitarinnar vegna þess að þeim líkaði við síðustu plötu þykir þeir sjálfsagt ekki hafa verið féflettir nú. Botnleðja er reyndar í hópi þeirra íslensku hljómsveita sem í dag semja góða tónlist og senda frá sér áhugaverða diska. Þessar íslensku hljómsveitir geta að margra áliti vel komist í þá stöðu að gera garðinn frægan erlendis.
En Botnleðju nægir ekki að áhugamönnum um góða tónlist líki við það sem hljómsveitin gerir, hún vill líka að stjórnvöld geri sér grein fyrir að tónlist af þessu tagi geti orðið útflutningsvara, eins og fram kemur í viðtali við hljómsveitina í desemberútgáfu Undirtóna. Vefþjóðviljinn er heldur meira fyrir tónlistararm sveitarinnar en pólitíska arminn ef þetta viðhorf endurspeglar hann. Það væri mikil ógæfa fyrir íslenska dægurtónlist ef hún lenti í klóm ríkisins og stjórnmálamenn færu að sýna henni meiri áhuga og sjá í henni aukin tækifæri til atkvæðakaupa. Þá er hætt við að sköpunargleðin þyrfti stundum að sætta sig við annað sætið.
Í umræddu viðtali telja Botnleðjumenn miður að hljómsveitir geti ekki „gengið beint í styrki en auðvitað ættu slíkir styrkir að vera til“. Þeir sakna þess sem sagt – ólíkt skattgreiðendum – að sjálfvirkir dægurlagahljómsveitastyrkir séu ekki til, en segja svo: „Reyndar höfum við verið styrktir af Iðnaðarráðuneytinu, en sá peningur kom ekki úr sjóð[i] sem var bara ætlaður tónlist. Vonandi er þetta að opnast. Það er kominn tími til að skipta út fólki í einhverjum ráðuneytum.“ Undir það má taka að kominn sé tími til að skipta út fólki í einhverjum ráðuneytum og þá helst að því sé skipt út án þess að annað sé sett inn í staðinn. En það vill einmitt svo til að úr einu ráðuneytinu, Iðnaðarráðuneytinu, var manni skipt út nýlega. Sá maður var þar ráðherra, heitir Finnur Ingólfsson og þarf nú að sætta sig við stöðu seðlabankastjóra. Þessi Finnur ákvað einmitt á síðasta kjörtímabili að rétt væri að nýta nokkurn hluta skattfjár til að kaupa flokki sínum, Framsóknarflokknum, stuðning. Hann er svo sem ekki fyrsti ráðherrann til að leika þennan leik, en þetta heppnaðist óvenju vel. Hann stofnaði sjóð og styrkti hina og þessa með þeim rökum að þeir kynnu einhvern tímann að flytja eitthvað út til annarra landa. Og Botnleðja var sum sé einn af hinum lánsömu þiggjendum.
(Ótengt þessum stuðningi ráðherrans lýsti söngvari Botnleðju yfir stuðningi við Framsóknarflokkinn fyrir síðustu kosningar. Menn skyldu þó varast að ræða þetta tvennt í sömu andrá svo það valdi ekki misskilningi.)
En Botnleðja er svo sem ekki ein um þá skoðun að ríkið eigi að styrkja hugsanlegar útflutningsgreinar framtíðarinnar. Þessi skoðun er algeng, en byggir á að minnsta kosti tvenns konar misskilningi og að auki byggir hún auðvitað á augljósu sérhagsmunapoti. Látum potið eiga sig en skoðum aðeins þann misskilning sem býr að baki skoðuninni. Fyrri misskilningurinn er sá að án framlags ríkisins fáist ekki nægt fé inn í þá tegund atvinnurekstrar þar sem verið er að skapa nýja möguleika. Slíkur rekstur er stundum kallaður áhætturekstur og þeir sem hann stunda geta kallast frumkvöðlar. Seinni misskilningurinn er að ríkið geti útdeilt fjármunum til slíkra verka með hagkvæmum hætti.
Fyrri misskilningurinn byggir á þeirri hugmynd að á markaðnum leiti ekki nægilega mikið fjármagn til frumkvöðla- eða áhættustarfsemi. Skortur á frumkvöðlafjármagni (e. venture capital) á þannig að standa í vegi þess að hagkvæm atvinnustarfsemi komist á laggirnar. Almennir fjárfestar eru samkvæmt þessari kenningu svo hræddir um fé sitt að þeir leggja ekki nógu mikið í þá starfsemi þar sem áhættan er mest. Þess vegna verði ríkið að taka fé af þeim nauðugum og setja í slíka starfsemi. Það er í raun furðulegt að þessi hugmynd skuli enn lifa eftir atburði síðustu mánaða á fjármálamarkaðnum um allan heim. Ef horft er yfir sviðið kemur einmitt í ljós að fjárfestar hafa verið mjög ákafir að setja fé í nýja starfsemi sem þeir hafa haft trú á. Fjármagn hefur flætt inn í nýjar greinar og fyrirtæki sem ekkert eru nema ein hugmynd hafa fengið stórfé frá bjartsýnum fjárfestum. Ástæðan er auðvitað sú að það er ekki aðeins áhættan sem er meiri í slíkum fjárfestingum en hinum hefðbundnu, heldur er gróðavonin líka meiri. Menn vonast eftir því að fjárfestingin skili sér á endanum margfalt til baka en vita jafnframt að hættan á að tapa öllu er umtalsverð. Og staðreyndin er einmitt sú að stór hluti þeirra fyrirtækja sem fær slíkt áhættufjármagn inn í fyrirtækin sýnir aldrei hagnað heldur endar í þroti. Þannig hafa nýjar rannsóknir frá þýska markaðnum sýnt að um eða yfir helmingur svo kallaðra dot.com fyrirtækja sem skráð eru í kauphöll þar í landi er á leið í greiðsluþrot og svipuð staða er uppi víða. Um allan heim hafa markaðir fyrirtækja sem eru að sækja fram á nýjum sviðum með nýjar hugmyndir hrapað. En þetta hefur þó ekki stöðvað frumkvöðlafjárfesta í að setja nýtt fjármagn í hugmyndir sem þeir telja góðar. Fjármagn í áhætturekstur er alltaf til staðar ef fjárfestar hafa á annað borð trú á að hlutfall áhættu og hagnaðarvonar sé rétt.
Þetta er einmitt lykilatriði og tengist síðari misskilningnum. Almennir fjárfestar vega saman áhættu og hagnaðarvon þegar þeim býðst að kaupa hlut í fyrirtæki á tilteknu verði. Ef áhættan er að þeirra mati of mikil miðað við hagnaðarvonina fjárfesta þeir ekki í fyrirtækinu sem verður þá að endurskoða verðlagninguna, hugmyndina eða hvort tveggja. Með þessum hætti veitir markaðurinn nýjum fyrirtækjum nauðsynlegt aðhald og tryggir að fjármagn leiti þangað sem það verður best nýtt. Með þessu er komið í veg fyrir sóun fjármuna.
Þegar ríkið ákveður að setja fé í áhættustarfsemi eru markmiðin ekki jafn skýr og þegar einkaaðilar setja fé sitt í starfsemina. Ríkið horfir ekki aðeins til þess hvort líklegt sé að starfsemin muni á endanum skila hagnaði enda væri þá engin þörf fyrir fjármagn frá ríkinu. Ríkið horfir á alla mögulega aðra þætti eins og til dæmis hvort fyrirtækið er staðsett í „réttum“ landshluta, hvort starfsemi þess hljómar spennandi í eyrum kjósenda og er þannig sniðug kynning fyrir stjórnmálamanninn sem beitir sér fyrir fjárveitingunni eða jafnvel hvort sá sem tekur við fénu er í réttum flokki eða ekki. Almennir fjárfestar láta slík sjónarmið ekki ráða, en þegar ríkið stundar fjárfestingar (eða veitir styrki eða lán) er óhjákvæmilegt að annarleg sjónarmið hafi áhrif á ákvörðunina. Og þegar rætt er um dægurlagatónlist er þannig ljóst að það eru ekki endilega bestu hljómsveitirnar sem fá stuðning ríkisins. Þetta getur jafnvel orðið til þess að spilla fyrir bestu hljómsveitunum því þær geta farið illa út úr samkeppni við ríkisstyrktu sveitirnar. Og Dægurlagahljómsveit ríkisins mun vafalaust líka á endanum líða fyrir að vera komin á spenann. Hættan er sú að hún verði óttalegur silakeppur og hlaupi í spik.