Miðvikudagur 27. desember 2000

362. tbl. 4. árg.

Nú fer sá tími í hönd sem áfengisverslun er hvað mest. Samskipti við hið opinbera, umfram þau hefðbundnu, eru því óhjákvæmilegur þáttur í hátíðarundirbúningi margra um þessar mundir. Það er sjálfsagt óhætt að fullyrða að nánast allir, sem á annað borð gera innkaup öðru hvoru hjá ÁTVR, hafi einhvern tímann orðið fyrir óþægindum af völdum þess fyrirkomulags sem ríkir í áfengisverslun. Algengustu óþægindin eru trúlega tengd afgreiðslutíma ÁTVR en einhverjir hafa líklega einnig orðið ergilegir vegna þjónustunnar eða vöruúrvalsins. Af nýlegum yfirlýsingum frá stjórnarmönnum ÁTVR mætti þó ráða að allt þetta stæði nú til bóta. Í Morgunblaðsviðtali á dögunum, undir yfirskriftinni „ÁTVR á réttri leið“, lýstu formaður og varaformaður stjórnar ÁTVR því yfir að til stæði að gera áfengisverslanir ríkisins meira í takt við það sem gerist hjá verslunum í eigu einkaaðila. Þannig stæði til að endurskoða afgreiðslutímann því stjórnarmennirnir geta vel skilið hversu ergilegt það geti verið að koma að verslunum ÁTVR lokuðum eftir hádegi á laugardögum þegar laugardagssteikin er veidd í matinn. Einnig var það upplýst að til stæði að auka útgáfu- og fræðsluþátt ÁTVR og var á það bent að á vef stofnunarinnar mætti finna ítarlegar upplýsingar léttvín, vínhéruð og jafnvel um mat.

Nú er ekki úr vegi að rifja upp hvers vegna ÁTVR er yfirleitt til staðar. Einkaleyfi til smásölu áfengis var veitt ÁTVR árið 1922 í þeim tilgangi að hefta aðgengi almennings að áfengi. Til að hafa stjórn á almenningi. Það hefur svo verið sjónarmiðið allt fram til þessa. Nú bregður hins vegar svo við að markmiðið með rekstri hins opinbera á áfengisverslunum virðist vera það að veita kúnnunum sem mesta og besta þjónustu. Til marks um það má benda á heimasíðu ÁTVR þar sem hægt er að gera innkaupin og óska þess að fá vörurnar sendar heim. Í raun er þjónustan orðin eins og hún gerist best hjá verslunum almennt. En um hvað snýst þá ÁTVR eiginlega? Ekkert. Venjulegar verslanir geta sinnt þessu hlutverki jafn vel og ÁTVR reynir að gera og mun takast að mörgu leyti með hinni „réttu leið“ stjórnarmannanna framsýnu. Ríkið á hins vegar ekki að taka þátt í þessari verslunarstarfsemi og allra síst nú, þegar hún er komin í samkeppni við einkaaðila um t.d. fræðastarfsemi.

Nú er Vefþjóðviljinn síður en svo á annarri skoðun en stjórnarmennirnir tveir sem hér er vitnað til og hefur fráleitt vantrú á þeim í rekstri áfengisverslana. Vefþjóðviljinn hefur meira að segja mikla trú á hugmyndum þeirra um þjónustustig og hlýlegar vínbúðir svo sem fögur fyrirheit voru gefin um. Það mætti hins vegar hugsa sér þessa stjórnarmenn hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd á kostnað annarra en skattgreiðenda og í þágu fleiri en ríkisins. Ekki má svo gleyma því bindindisfólki sem sárnar að ríkið skuli ætla að „poppa upp“ áfengisverslunina. Ráðherra áfengisverslunarmála, fjármálaráðherra, ætti að fara að huga að breytingum á þessu úrelta fyrirkomulagi og vinna að því að leggja niður ÁTVR. Með því kynni hann að bregða óvæntri birtu í brjóst margra sem hafa furðað sig á framtaksleysi Sjálfstæðisflokksins í þessu óleysta verslunarfrelsismáli.

Að lokum þykir hér rétt að taka undir ábendingar formanns og varaformanns stjórnar ÁTVR í áðurnefndu viðtali, um að áfengisgjald, og þar með verð á áfengi, væri allt of hátt og brýnt væri að lækka það. Þau bentu réttilega á að áfengisgjald væri hér á landi mun hærra en í nágrannalöndunum og engin rök önnur fyrir því en einangrun landsins sem kæmi í veg fyrir samkeppni. Vefþjóðviljinn vill þó bæta því við að sú einangrun er gjarnan rofin með utanlandsferðum þeirra sem efni hafa á, en með skattlagningarstefnu sinni hefur ríkið einmitt lagt sitt af mörkum til stéttskiptingar. Þeir gráta nefnilega ekkert sérstaklega yfir vínverðinu, opinberu embættismennirnir og aðrir sem hafa tök á tíðum utanlandsferðum.