Miðvikudagur 13. desember 2000

348. tbl. 4. árg.

Í gær benti Vef-Þjóðviljinn á að lögreglan hefst lítið sem ekki að þegar hópur manna tekur sig saman og brýtur lög. Hún er hins vegar af og til með „átak“ í gangi og stöðvar þá suma eða alla sem aka tilteknar götur, algerlega án tillits til þess hvort þeir hafi gerst brotlegir við lög eða ekki. Og lögreglan á það líka til þó ekkert átak sé í gangi að stöðva ökumenn og fara fram á að þeir yfirgefi bíla sína og gefi jafnvel svör um hvert för þeirra sé heitið og hvaðan þeir komi. Íslendingar halda ef til vill að svona sé þetta bara og það tíðkist alls staðar í heiminum að lögregla stöðvi menn án nokkurrar ástæðu þegar henni hentar og vilji hún athuga hvort allt sé ekki örugglega með felldu. Svo er þó ekki.

Í Indianapolis í Bandaríkjunum var lögreglan með „átak“ fyrir tveimur árum og leitaði að fíkniefnum hjá ökumönnum án þess að sérstök ástæða væri til að ætla að þeir væru með slík efni. Tveir ökumannanna voru ekki nema mátulega sáttir við að ríkisvaldið sendi menn út af örkinni til að stöðva þá af engu tilefni og höfðuðu mál. Það endaði í hæstarétti Bandaríkjanna sem féllst á sjónarmið mannanna um að með órökstuddri leit hafi verið brotið á rétti þeirra. Vitaskuld má deilda um það hvar mörkin á milli nauðsynlegrar löggæslu annars vegar og réttinda borgaranna til að fá að vera í friði hins vegar eiga að liggja. Það sem er ef til vill furðulegast hér á landi er að fáum virðist finnast nokkur ástæða til að velta þessu fyrir sér. Og þegar menn, sem ekki eru grunaðir um nokkurn glæp, benda lögreglunni á að ekki sé sjálfsagt að henni séu gefnar upplýsingar um ferðir þeirra á hún það til að verða kindarleg eða jafnvel hálf-önug. Þó er nauðsynlegt að lögreglumenn hafi alltaf í huga að þeir verða að gæta þess vel að brjóta ekki á réttindum borgaranna og valda þeim sem allra minnstum óþægindum.

Ef látið er eins og tilviljanakenndar yfirheyrslur lögreglunnar á borgurum sem eru undir stýri séu sjálfsagðar og eðlilegar, hvernig geta borgararnir þá verið vissir um að þeir verði ekki heimsóttir með tilviljanakenndum hætti í því skyni að kanna hvort þeir haldi ekki örugglega lögin. Hvað þætti mönnum til að mynda um að fulltrúar skattayfirvalda heimsæktu hugsanlega brotamenn (sem sagt hvern sem er) og gerðu könnun á því hvort þeir hefðu greitt allt sitt? Eða ef starfsmenn einhverrar ríkisstofnunar, t.d. RÚV, gerðu fólki rúmrusk og reyndu með lævísum hætti að komast að því hvort það ætti sjónvarp sem það greiddi ekki af?
Þú ert afbrotamaður þar til annað kemur í ljós!