Þriðjudagur 12. desember 2000

347. tbl. 4. árg.

Einn hausinn á ríkisþursinum hugsar þessa dagana um mögulegar afleiðingar þess fyrir samkeppni á fjármálamarkaði að tveir bankar í eigu sama aðila – ríkisins – sameinist. Ef einhverjar þeirra samsæriskenninga sem svonefnd samkeppnislög eru byggð á fá staðist ætti það ekki að breyta neinu. Engu að síður berast nú af því fréttir að Samkeppnisráð fundi stíft og starfsmenn Samkeppnisstofnunar vinni nótt sem nýtan dag að því að spá fyrir um það hvað gerist þegar tveir bankar ríkisins verða að einum. Með því að leggja nógu hart að sér tekst starfsmönnum Samkeppnisstofnunar væntanlega að sjá fyrir um framtíðina, hvaða erlendu bankar opna útibú hér, hverjir ná viðskiptum með nýrri samskiptatækni, hversu margir Íslendingar muni skipta við íslenska eða erlenda banka í öðrum löndum o.s.frv. Framtíðin mun liggja fyrir þegar Samkeppnisráð hefur fundað nægilega oft og starfsmenn Samkeppnisstofnunar hafa lagt sig fram.

En það eru ekki aðeins „samkeppnisyfirvöld“ sem geta séð fyrir hvernig kaupin gerast á eyrinni. Iðnaðar- og viðskiptaráðherra leggur einnig hart að sér þessa dagana til að tryggja sameiningu ríkisbankanna enda er það „mjög góður kostur í stöðunni“. Áætlanadeildir ráðuneytanna í Sovétríkjunum voru einnig sannfærðar um að það væri mjög góður kostur í stöðunni að framleiða fæði og klæði með þeim hætti sem þær ákváðu sjálfar að væri mjög góður kostur í stöðunni. Og hvers vegna á að selja hlut ríkisins í bönkunum ef Valgerður Sverrisdóttir getur rekið þá betur enn nokkur annar? Hún virðist að minnsta kosti þeirrar skoðunar að hún sé hæfari en væntanlegir kaupendur til að meta hvort það er yfirleitt góður kostur í stöðunni að sameina þessa banka.

Í gær voru lög og regla numin úr gildi á Reykjanesbraut. Þar lagði nokkur hópur svo kallaðra mótmælenda bílum sínum þannig að aðrir komust ekki leiðar sinnar. Þrátt fyrir þetta hafðist lögreglan ekki að. Hún mun að vísu hafa óskað eftir því við „mótmælendurna“ að þeir hættu þessu, en fyrst þeir vildu það ekki var látið þar við sitja. Nú mætti nota ýmis óvirðulegri orð en „mótmælendur“ yfir þá sem mótmæla með slíkum hætti, en það skal látið ógert og látið nægja að benda á að verknaðurinn á lítið skylt við eðlileg og lögmæt mótmæli. Þau „mótmæli“ sem þarna fóru fram lögðu fólk í hættu og ollu því miklum óþægindum og kostnaði. Það er auðvitað ekki hægt að una við það að hópur fólks sem er óánægður með eitthvað í þjóðfélaginu komi saman og valdi öðrum skaða um leið og hann lætur þessa óánægju sína í ljósi. Um þetta gildir að frelsi eins til að mótmæla nær einungis að frelsi annars til að þurfa ekki að líða fyrir mótmælin. Hafi ríkisvaldið réttmætt hlutverk er það helst að halda uppi lögum og reglu og tryggja réttindi borgaranna. Ef það er ófært um að verja borgarana gegn ófriðarseggjum er kominn tími til að það dragi úr umsvifum annars staðar og einbeiti sér að því sem það ætti helst að sinna. Ef ekki er hægt að tryggja öryggi borgaranna er varla ástæða til að eyða milljörðum króna í óþörf eða jafnvel skaðleg gæluverkefni á borð við nýtt og aukið fæðingarorlof, tónlistarhús, þverun Kolgrafarfjarðar, eða hvað þau nú heita öll atkvæðaveiðitækin.