Mánudagur 11. desember 2000

346. tbl. 4. árg.

Ýmsir horfðu með hryllingi á Alþýðuflokkinn sameinast skuldum Alþýðubandalagsins og forystumenn Alþýðuflokksins draga sig í hlé svo þeir fáu sem fylgdu ekki Steingrími J. Sigfússyni úr Alþýðubandalaginu fengju forystuhlutverk í Samfylkingunni. Ýmsir hafa spurt að því hvort Samfylkingin sé ekki bara Alþýðuflokkurinn með annað nafn og hærri skuldir. Til dæmis var Össur Skarphéðinsson formaður Samfylkingarinnar inntur eftir því í Silfri Egils fyrir nokkrum dögum hvort nokkur munur væri á Alþýðuflokknum og Samfylkingunni. Össur taldi þetta alls ekki sama flokkinn og benti hróðugur á stefnu Samfylkingarinnar í „byggða- og landbúnaðarmálum“ sem væri allt önnur en Alþýðuflokksins. En var stefna Alþýðuflokksins í þessum málum ekki einmitt það besta við þann flokk?

Fyrir rúmum tíu árum var því heitið í Bandaríkjunum af pólitíkusum í vinsældarkeppni og starfsmönnum forvarna- og meðferðaiðnaðarins að Bandaríkin yrðu fíkniefnalaus árið 1995. Milljörðum dollara var varið í aukna löggæslu, ný fangelsi fyrir sölumenn og kaupendur dauðans og hvers kyns áróður, forvarnir og meðferðir. Svo vel tókst til með átakinu að íslensk stjórnvöld settu sér það takmark fyrir nokkrum árum að Ísland verði fíkniefnalaust árið 2002. Vafalaust mun íslenska átakinu ljúka með álíka glæstum árangri og því bandaríska. Til marks um hve landið verður fínkembt má nefna að lögreglan á Ísafirði gerði 0,2 grömm af hassi og tóbaki upptæk á síðasta ári (væntanlega vopnuð stækkunargleri og flísatöng). Nú rúmu ári síðar féll dómur yfir manni fyrir að hafa 0,2 grömmin „í vörslu“ sinni.

Eins og þeir sem fylgjast með fjölmiðlum vita þá er það árviss viðburður að starfsmenn löggæslu- fornvarna- og meðferðabisnessins skelfi okkur með sögum um stóraukna neyslu fíkniefna. Þetta gerist iðulega að hausti og hefur ekkert með það að gera að á sama tíma stendur yfir umræða á Alþingi um fjárlög og þar með fjárframlög til þessarar atvinnugreinar.