Heilbrigðisráðherra hefði haft gott af því að sækja fjölmennan fund kollega sinna í hjúkrunarfræðinni á miðvikudagskvöldið en þar var rædd einkavæðing í heilbrigðisrekstri. Þá hefði hún fengið tækifæri til að vera í liði með einum frummælandanum, hinni rauðgrænu Þuríði Bachmann, en á henni virtust öll spjót standa á þessum fundi. Auk fjögurra frummælanda tók töluverður fjöldi fundarmanna til máls, allir hjúkrunarfræðingar að því er virtist, og voru hin óformlegu erindi þeirra það sem vakti mesta athygli Vefþjóðviljans. Ekki komu fram efasemdir um þörf fyrir nýjar leiðir í rekstri heilbrigðisstofnana hjá einum einasta þeirra. Þvert á móti var rekstri heilbrigðiskerfisins líkt við rekstur fjarskiptakerfisins og fjármálakerfisins og á það bent að vilji heilbrigðisstéttanna sjálfra eða ríkisvaldsins skipti ekki eins miklu í þróun þess eins og vilji neytenda mun á endanum gera. Neytendur gera nefnilega síauknar kröfur til heilbrigðisþjónustunnar eins og annarrar þjónustu. Þannig leggur sumt fólk mikið upp úr því að fá sérstaka heilbrigðisþjónustu í stað annarra gæða og er tilbúið til að greiða fyrir hana. Þessu hafa þeir sem vinna á heilbrigðisstofnunum tekið eftir og gera sér grein fyrir þörfinni fyrir fjölbreyttari þjónustu.Á fundinum varpaði einn fundarmanna fram þeirri spurningu til Þuríðar rauðgrænu hvað væri eiginlega rangt við það að til dæmis öldrunarstofnanir þyrftu að sýna einhvern arð af rekstri sínum. Svarið frá Þuríði var einfalt, það væri bara ekki gott.
Nú þætti kannski einhverjum gott að búa í „af því bara“ veröld Þuríðar en reyndin er bara allt önnur og starfsfólk í heilbrigðisstétt sér daglega með eigin augum að tækifæri liggja í veitingu heilbrigðisþjónustu og að arður knýr fram og er forsenda bættrar þjónustu og þróun hennar. Þau eru því hjákátleg rökin gegn breytingu á rekstrarfyrirkomulaginu að með því myndi hæft starfsfólk flýja opinberu stofnanirnar og setjast að í þeim einkareknum. Og eftir stæðu tómar ríkisstofnanirnar. Menn halda sem sagt að með því að neita einkareknum sjúkrastofnunum um samstarf við ríkið sé hægt sé að tjóðra starfsólkið á ríkisstofnunum og hindra að það flytji sig yfir til þeirra einkareknu. Með aukinni velmegun eru menn hins vegar í auknum mæli tilbúnir til að borga sjálfir án milligöngu ríkisins fyrir ákveðna heilbrigðisþjónustu ef það mætti verða til þess að þjónustan stæði til boða á þeim tíma sem hennar er mest þörf. Ef fólk hefði sjálft val um það hvert það fé, sem það greiðir nú í skatta, rynni færi stærri hluti þess til heilbrigðismála en nú er. Hver landsmaður gæti til dæmis keypt sér sjúkratryggingu fyrir 25 þúsund krónur fyrir það sem nú rennur til landbúnaðarkerfisins úr ríkisjóði. Fyrir 25 þúsund krónur má fá mjög góða tryggingu. Ágætt dæmi um heilbrigðisþjónustu þar sem neytandinn sjálfur hefur töluverðar forsendur til að hafa álit á er fæðingarhjálp. Auknar kröfur eru gerðar til þessarar þjónustu og af ýmsum ástæðum eru menn tilbúnir til að greiða fyrir aukið val í þeim efnum. Auðvitað getur ríkisvaldið ákveðið að taka ekki þátt í fjölbreyttara rekstrarfyrirkomulagi með því að neita að gera sambærilega samninga við starfsfólk einkarekinna stofnanna og það hefur gert við ríkisstofnanirnar. Með því væri ríkið þó enn og aftur að fara gegn markmiðum sínum um „jafnræði til heilbrigðsþjónustu“. Það væri nefnilega að renna enn styrkari stoðum undir það að sumir hefðu meira val en aðrir.
Við umræðu um breytt rekstrarfyrirkomulag í heilbrigðisþjónustu er nauðsynlegt að skoðuð verði kostnaðarþátttaka neytenda almennt. Ætti slík endurskoðun í raun að fara fram burtséð frá umræðu um rekstrarform. Hugmyndir neytenda um kostnað við heilbrigðisþjónustu eru mjög þokukenndar. Algengt er að menn mikli fyrir sér kostnað við minni aðgerðir en vanmeti kostnað við stærri og flóknari aðgerðir. Minni aðgerðir og einfaldari eru mun algengari en þær flóknu. Undanfarið hefur verið komið á gjaldtöku af ýmsu tagi innan ríkisspítalanna. Menn borga þannig fyrir blóðrannsóknir og myndatökur nokkur hundruð krónur og kom einmitt fram á áðurnefndum fundi að sjúklingum þætti slík gjaldtaka ekkert tiltökumál.