Laugardagur 9. desember 2000

344. tbl. 4. árg.

Einu sinni var gefið út Íslandi rit sem nefndist Fréttir frá Sovétríkjunum og var þar dregin upp falleg mynd af framþróuninni í Austur-Evrópu og hvernig stjórnvöldum þar gengi alltaf betur og betur að bæta réttindi og kjör almennings. Einhvern veginn fór nú svo að þessi látlausa sigurganga endaði eins og hún endaði og hafði það meðal annars þær aukaverkanir á Íslandi að Fréttir frá Sovétríkjunum hættu að koma út.

Fram þjáðir menn í fimmtán löndum
Fram þjáðir menn í fimmtán löndum

En áhugamönnum um erlend tíðindi bjóðast önnur blöð sem ættu að hljóma freistandi í þeirra eyrum. Eitt þeirra er Fréttir frá ESB en desemberhefti tímaritsins kom út á dögunum. Fjallar tímaritið ekki síst um framþróunina í Evrópu og hvernig framkvæmdastjórn Evrópusambandsins gengur alltaf betur og betur að bæta réttindi og kjör almennings. Í nýjasta heftinu er meðal annars greint frá þeim áfanga að nú hafi verið samþykktur „texti réttindaskrár ESB“ og ættu Evrópubúar þá loks að geta sofið rólegir. Í blaðinu er mikið látið með það hve hinn nýi texti sé skýr og skorinorður og segir blaðið meðal annars: „Réttindaskráin er stutt og skrifuð á skýru máli“ … „Réttindaskráin er stutt, afdráttarlaus og auðskilin“ … „Mikil áhersla er lögð á að hann sé skýr, afdráttarlaus og auðskilinn.“

Og til að enginn þurfi að ímynda sér að þetta séu orðin tóm, þá segir blaðið með stolti: „Sáttmálinn er aðeins 23 blaðsíður að lengd…“. Einungis.