Spegillinn heitir þáttur sem sendur er út eftir kvöldfréttir Ríkisútvarpsins og hefur þann tilgang að vinstri sinnaðir launþegar skattgreiðenda geti komið sjónarmiðum sínum á framfæri. Þessi sjónarmið eru oft þau að skattgreiðendur greiði ekki næga skatta og að þenja beri ríkisbáknið enn frekar út. Ef til vill er ekki undarlegt að starfsmenn ríkisins vilji umfang þess sem mest, en að þeim skuli dag eftir dag vera greitt fyrir að koma þessum einkaskoðunum sínum á framfæri er óneitanlega stórundarlegt. Í gær flutti einn þessara manna pistil sinn og ræddi um þá skelfilegu staðreynd að svo kölluðum náttúruverndarsamtökum hér á landi hafi verið „mismunað“ við fjárlagaafgreiðsluna. Vandinn mikli er víst sá að eitt félag fékk styrk en annað ekki. Ekki að styrkur hafi yfirleitt verið veittur úr ríkissjóði til slíkra hluta. Samkvæmt stuðningsmönnum aukinna ríkisútgjalda væri víst betra að bæta gráu ofan á svart með því að féfletta skattgreiðendur tvisvar en ekki bara einu sinni.
Og hvernig skyldi þetta nú hafa verið matreitt í Speglinum. Jú, mikið rétt, sá sem speglaði sig að þessu sinni talaði af miklum ákafa um málið og fór varla fram hjá þeim sem á hlýddu hversu alvarlegri „mismunun“ þau samtök höfðu orðið fyrir sem ekkert skattfé fengu. Reikna má með að hlustendur hafi allan tímann beðið eftir því að sjónarmið skattgreiðenda færu að heyrast, en bið var á því. En svo kom loks ein spurning sem þeim var heldur til hagsbóta. Spurt var hvers vegna ríkið ætti yfirleitt að vera að styrkja frjáls félög af þessu tagi. Nú hefði einhverjum líklega þótt eðlilegt að speglarinn reifaði eitt og annað af því sem mælir gegn slíkum fjárframlögum. Hann hefði getað nefnt að það sé fólk úti í bæ sem greiðir þetta nauðugt. Fólk sem engan áhuga hafi á að greiða fyrir þessa starfsemi og sé jafnvel alfarið á móti henni. Og hann hefði getað bent á að þeim sem líkar við félagsskapinn sé ekki meinað að styrkja hann sjálfir. Hann hefði jafnvel að ósekju getað minnt á að ríkisútgjöld hafa þanist út síðustu ár og áratugi og að við fjárlagagerðina nú hafi verið brýn þörf á að sýna aðhald. Allt þetta, eða að minnsta kosti hluta þessa, væri eðlilegt að ætlast til að maður sem þiggur fé frá nauðugum almenningi nefni í slíkum pistli. Ekkert af þessu kom þó fram, en vitanlega komu fram kenningar ríkisútgjaldasinnanna, enda nauðsynlegt að þær fáist viðraðar í Ríkisútvarpinu. Og í þeim kenningum ríkisútgjaldasinnanna fólst mikill vísdómur: Jú, það eru sko til samþykktir gerðar á fundum erlendis sem segja að gott sé að frjáls félög njóti styrkja frá almenningi nauðugum.