Andstæðingar Samfylkingarinnar finna gjarnan að því að hún hafi enga skýra stefnu. Talsmenn hennar séu hverjum öðrum ótrúverðugri og tali mörgum tungum í mikilsverðum málum. Afleiðingin er sú að Samfylkingin hefur ekki náð vopnum sínum í stjórnarandstöðunni og vinstri-grænir rassskella þá í hverri skoðanakönnuninni á fætur annarri. Sem betur fer á ungliðahreyfing Samfylkingarinnar ekki við þetta vandamál að stríða. Þar ríkja skeleggir leiðtogar sem eru ófeimnir við að koma skýrri stefnu sinni á framfæri. Í sjónvarpsþættinum Silfri Egils sl. sunnudag svaraði Katrín Júlíusdóttir, formaður ungra jafnaðarmanna, spurningum Egils Helgasonar. Þegar hún var spurð um hver væri versta ríkisstjórn í sögu lýðveldisins, var hún fljót að nefna tvær til sögunnar. Samstjórn Alþýðuflokks og Sjálfstæðisflokks 1991-95 og samstjórn Alþýðuflokks, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks 1987-88.
Þá vitum við það. Tvær af þremur ríkisstjórnum sem Alþýðuflokkurinn hefur átt aðild að á síðastliðnum tuttugu árum, eða svo langt sem pólitískt minni formannsins unga nær, voru verstu ríkisstjórnir sem þjóðin hefur þurft að þola. Þær voru þ.a.l. verri en sú ríkisstjórn sem tók við völdum af Alþýðuflokknum árið 1995 og enn situr. Í seinni stjórninni sátu meðal annarra eðalkrata Jóhanna Sigurðardóttir, Sighvatur Björgvinsson, Guðmundur Árni Stefánsson og Rannveig Guðmundsdóttir núverandi þingflokksformaður Samfylkingar og einnig Össur Skarphéðinsson núverandi formaður Samfylkingarinnar. Þjóðin hlýtur að hlusta á slík viðvörunarorð úr munni formanns ungra jafnaðarmanna og hugsa sig um tvisvar áður en hún treystir krötum, Alþýðuflokknum eða arftaka hans á nýjan leik.