Biskup Íslands, sá sami og er ætíð reiðubúinn til að gefa yfirlýsingar um eyðslu, neysluæði og græðgi annarra, tjáði sig um málefni Þingvallaprestakalls í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins í vikunni. Kvartaði hann sáran yfir því að svo virtist sem ríkisstjórnin hefði ákveðið að leggja niður embætti prests á Þingvöllum sem skattgreiðendur þurfa að sjálfsögðu að borga fyrir eins og önnur prestsembætti. Talaði biskupinn um kaldar kveðjur ríkisins til kirkjunnar í lok Kristnihátíðarárs.
Einhver hefði spurt hvort þetta væru ekki kaldar kveðjur biskups til ríkisstjórnar sem hélt tveggja ára hátíð til að auglýsa kirkjuna og halda merki hennar á lofti um land allt. Til hátíðarinnar fóru mörg hundruð milljónir króna en á sama tíma sendi kirkjan 15 milljónir króna til hjálpar bágstöddum á Indlandi. Það er því ekki skrítið þótt biskupi hafi orðið tíðrætt um neysluæði og græðgi meðan á hátíðinni stóð.
Umrædd frétt snerist í raun ekki um annað en hefðbundin mótmæli talsmanns þrýstihóps (biskups) við sparnaðarhugmynd. Eins og í fleiri RÚV-fréttum fékk talsmaður þrýstihópsins að koma einhliða áróðri sínum á framfæri en sárlega vantaði hagnýtar upplýsingar fyrir skattgreiðendur sem borga brúsann. Þannig var ekki sagt frá því hvað sérstakt prestsembætti á þessum stað kostar skattgreiðendur né hve margar sálir búa í sókninni. Þingvallasókn er sennilega fámennasta sókn landsins sem hefur sérstakan prest í þjónustu sinni en Þingvallahreppur er fjórða fámennasta sveitarfélag landsins með alls 49 íbúa. Ef einhvers staðar er hægt að spara hjá kirkjunni og fækka starfsmönnum, ætti það einmitt að vera á þessum stað. Það ætti að vera hægur leikur að fela öðrum presti að taka að sér að annast þau fáu prestverk sem falla til í Þingvallasókn, t.d. prestinum í Mosfellssveit eða Grafarvogsprestakalli, enda stutt að fara. Í raun ætti að vera auðvelt að fá presta hvaðanæva að af landinu til að messa í Þingvallakirkju vegna sögulegs gildis staðarins.
Á biskupi var ekki annað að heyra en hætta væri á að hin litla en snotra Þingvallakirkja grotnaði niður ef hugmyndir ríkisstjórnarinnar yrðu að veruleika. Ekki ætti að vera hætta á því enda er kirkjan þekktur ferðamannastaður og vinsælt er að fá kirkjuna til brúðkaupsathafna. Ekkert er athugavert við það að taka þóknun þegar kirkjan er leigð til athafna og víðast hvar erlendis þykir sjálfsagt að innheimta aðgangseyri af ferðamönnum þegar þeir koma í kirkjur. Fáar sveitakirkjur eru betur til þess fallnar að standa undir sér en Þingvallakirkja.