Helgarsprokið 26. nóvember 2000

331. tbl. 4. árg.

Jólabækurnar
Jólabækurnar

Almennt má treysta því, að þegar fjölmiðlamenn segja frá atburðum, ákvörðun eða sjónarmiðum sem hátt ber, þá láti þeir hjá líða að setja umræðuefnið í samband við annað það sem gerst hefur eða horfa á það frá fleiri hlið en einni. Sé til dæmis byggð brú eða lagður vegur þá má treysta því að í fjölmiðlum birtist mynd af nýju brúnni eða fína veginum, sagt verði frá því hvað leiðin milli tveggja puntka hafi nú styst og svo verði rætt við heimamann um þá lyftistöng sem mannvirkið verði fyrir „byggðina á svæðinu“. Jafnöruggt er það að fréttamaðurinn mun ekki fjalla um allt skattféð sem fór til framkvæmdanna og að það skattfé hafi verið tekið með valdi frá fólki og fyrirtækjum sem þar með geti ekki nýtt það til annarra hluta. Einnig þarf enginn að búast við að rætt verði við forsvarsmann fyrirtækis sem réði ekki við skattgreiðslurnar, hætti rekstri og sagði upp starfsmönnum. Þetta stafar allt af því að fréttamönnum – rétt eins og öðru fólki – hættir við að horfa á mál frá einni hlið en gleyma öllum öðrum.

Hagfræði í hnotskurn eftir Henry Hazlitt
Hagfræði í hnotskurn eftir Henry Hazlitt

Reyndar eru slíkar og aðrar hagfræðilegar ranghugmyndir óhugnanlega algengar og þurfa menn ekki að hlusta lengi á umræður á Alþingi, horfa á marga fréttatíma eða lesa marga pistla kaffihúsaspekinga til að sannfærast um það. Þeir sem fylgjast með slíku spakvitringaspjalli þurfa vart að undrast það hve oft almennar skoðanir á meginatriðum hagfræði og efnahagsmála fara fjarri því sem mestu máli skiptir á þeim sviðum. En þó menn hugsi stundum með sér hve gott væri ef vísindamenn fyndu upp lyf sem ynni á hagfræðilegum ranghugmyndum fólks, þá er hætt við að slíkt undralyf láti á sér standa. En nú geta menn þó huggað sig við það að út er komin í íslenskri þýðingu Haraldar Johannessen hagfræðings bók, þar sem reynt er að útskýra helstu grundvallaratriði efnahagsmálanna með alþýðlegum hætti og slá þannig á ýmsar þær ranghugmyndir sem hagsmunahópar og skammsýnir stjórnmálamenn hafa reynt að halda að fólki árum saman.

Bók þessi nefnist Hagfræði í hnotskurn og er íslensk þýðing bókarinnar Economics in one lesson sem Vefþjóðviljinn hefur nokkrum sinnum minnst á. Í bókinni útskýrir höfundurinn, Henry Hazlitt, helstu lögmál efnahagslífsins og fara helstu ranghugmyndir þjóðfélagsumræðunnar mjög halloka fyrir röksemdum hans. Hazlitt útskýrir hvað býr að baki háum sköttum, verðbólgu, atvinnuleysi og kreppu, fjallar um hlutverk verðs og hagnaðar, vélvæðingu, lágmarkslaun, tolla, hámarksleigu, verkalýðsfélög og margt fleira. Bókin opnar völundarhús hagfræðilegrar umræðu fyrir lesandanum og í raun má segja að líklegt sé að eftir lestur bókarinnar fylgist lesandinn með fréttum með öðru hugarfari en áður.

Bókin Economics in one lesson er með þekktustu bókum á sínu sviði og milljónir eintaka hafa selst af henni í Bandaríkjunum frá því hún kom þar fyrst út. Vefþjóðviljinn fullyrðir að hún eigi ekki síður erindi við íslenska lesendur en bandaríska og má um það einnig vísa til orða Ragnars Árnasonar, prófessors í hagfræði við Háskóla Íslands, sem segir á bókarkápu: „Bók Hazlitts hefur lengi setið í öndvegi þeirra rita sem spreyta sig á alþýðlegri framsetningu á hagfræði. Hún ber af fyrir skýra hugsun og tæra framsetningu á ýmsum grundvallarniðurstöðum hagfræðinnar.“