Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri R-listans hefur lýst áhuga sínum á að netvæða Reykjavík með aðstoð borgaryfirvalda, með öðrum orðum skattgreiðenda. Hún hefur svo sem ekki orðað hugmynd sína með þessum hætti, en þegar stjórnmálamaður vill að gert sé sérstakt átak um að gera eitthvað þýðir það útgjöld fyrir skattgreiðendur. Slíkt þýðir reyndar útgjöld fyrir skattgreiðendur sem skattgreiðendur báðu alls ekkert um. Það sem skattgreiðendur í borginni og annars staðar vilja öðru fremur er að greiða lága skatta. Rétt eins og þeir vilja greiða sem lægst verð fyrir allt annað sem þeir fá. Þeir ætlast ekki til þess að borgarstjóri leggi á þá skatta til að stunda svo áhugamál sín, hvort sem það er átak um netvæðingu borgarinnar eða átak um að framgangur japanskrar leikbrúðugerðar verði sem mestur í borginni, kynni borgarstjóri að hafa á því sérstakan áhuga.
Hvort tveggja er háð sömu lögmálum, útbreiðsla netsins og japönsku leikbrúðugerðarinnar. Það er til ákveðinn hraði á útbreiðslu sem hentar best fyrir hvort tveggja og það er einmitt sá hraði sem fæst með viðskiptum á markaðnum. Útbreiðsluhraðinn sem fæst með afskiptum yfirvalda er svo einmitt ekki sá hraði sem hagkvæmastur er og ákjósanlegastur. Staðreyndin er sú að eftir að Al Gore gaf sér tíma frá demókratískum lagaflækjum til að finna upp netið hefur útbreiðsla þess verið afar hröð bæði í Reykjavík og annars staðar í veröldinni. Borgaryfirvöld þurfa ekki að rétta því hjálparhönd, nema þá helst með því að lækka skatta (eða að minnsta kosti að hætta við að hækka þá) svo almenningur hafi betur efni á að vafra um netið. Útbreiðsla leikbrúðugerðarinnar hefur gengið heldur hægar, og stafar það líklega af því að áhugi á henni er minni en á netinu. Af því ætti borgarstjóri ekki að draga þá ályktun að þar þurfi átak til að hraðar megi ganga.
Annars er nú ekki hægt að taka þessa hugmynd borgarstjóra alvarlega. Þetta er dæmigert útspil stjórnmálamanns sem vill þykjast vera nútímalegur en er í raun bara fastur í sömu gömlu lausnunum, þ.e. þeim lausnum að ríki og sveitarfélög eigi í sífellu að grípa inn í eðlileg samskipti og viðskipti fólks. Og þessi tillaga borgarstjóra er líka dæmigerð fyrir stjórnmálamann sem vill vera þátttakandi í einhverju jákvæðu sem er að gerast og vill reyna að láta fólk halda að hann hafi átt nokkurn þátt og að honum beri þakkir.