Laugardagur 14. október 2000

288. tbl. 4. árg.

Al Gore varaforseti Bandaríkjanna vakti máls á því í sjónvarpskappræðum við George W. Bush ríkisstjóra í Texas í vikunni að Bush teldi hlýnun andrúmsloftsins ekki vera af manna völdum en sjálfur er Gore þeirrar skoðunar andstætt 99 af 100 félögum hans í öldungadeild Bandaríkjaþings. Eftir að Gore vakti máls á þessu spurði stjórnandi umræðunnar Bush beint hvað honum þætti um gróðurhúsaáhrifin. „Ég tel það vera mál sem við eigum að taka alvarlega en hins vegar skortir okkur enn vitneskju til að ákveða hvernig við eigum að bregðast við. Ég tel að enn liggi ekki allar þær staðreyndir fyrir sem við þurfum til að taka ákvörðun um þetta mál og ég ætla ekki að láta Bandaríkin ein um að hreinsa andrúmsloftið eins og Kyoto bókunin gerir ráð fyrir en Kína og Indland eru undanþegin þeim samningi.“, svaraði Bush. Seinna bætti hann við að ýmsir vísindamenn hefðu skipt um skoðun á þessu máli að undanförnu og ítrekaði að allar staðreyndir málsins þyrftu að liggja fyrir áður en gripið væri til aðgerða.

Spár IPCC um hlýnun á næstu öld.
Spár IPCC um hlýnun á næstu öld.

Sjálfskipaðir umhverfisverndarsinnar halda því gjarnan fram að ekki sé lengur ágreiningur um orsakir hugsanlegrar hlýnunar andrúmslofts jarðar og bæði vísindamenn og stjórnmálamenn um víða veröld séu á einu máli um þetta. Sýnishornið hér að framan úr kappræðum forsetaframbjóðendanna sýnir þó að þetta á ekki við um stjórnmála- og vísindamenn í öflugasta ríki veraldar. Ekki er útilokað að næsti forseti Bandaríkjanna verði, eins og 99 af 100 þingmönnum öldungadeildarinnar, andvígur því að menn ani út í aðgerðir gegn auknum gróðurhúsaáhrifum af manna völdum áður en fyrir liggur hvort þau eiga sér stoð í raunveruleikanum. Raunar er sú nefnd sem vinnur að rannsóknum á gróðurhúsaáhrifunum á vegum Sameinuðu þjóðanna (IPCC) ekki sammála sjálfri sér frá ári til árs. Eins og sést á grafinu hefur nefndin lækkað spár sínar um hlýnun andrúmsloftsins á næstu öld jafnt og þétt.

George W. Bush viðraði raunar fleiri skynsamleg sjónarmið í umræðunum um umhverfismál. Svonefndur Dagur jarðar hefur verið haldinn hátíðlegur árlega frá því hann var fyrst haldinn 22. apríl árið 1970 í Bandaríkjunum. Á þessum degi fara umhverfisverndarsinnar í skrúðgöngur og stjórnmálamenn sem eru hallir undir sjónarmið umhverfisverndarsinna vekja á sér athygli. Bush benti hins vegar á það að „hjá landeiganda væri hver dagur Dagur jarðarinnar og öll þekking á umhverfismálum væri ekki saman komin í Washington D.C.“ Það er ánægjulegt þegar menn átta sig á því að besta leiðin til að gæta að gæðum jarðar er að koma þeim í einkaeign. Það hefðu til dæmis mátt vera fleiri slíkir í auðlindanefndinni sem skilaði skýrslu til forsætisráðherra á dögunum. Þá hefðu ef til vill komið fram tillögur sem fleiri en hörðustu sósíalistar geta sætt sig við.