Föstudagur 13. október 2000

287. tbl. 4. árg.

Vandfundnir eru þeir fjölmiðlar sem ekki fjalla reglulega um íþróttir fullorðinna og sum dagblöð halda úti sérstökum aukablöðum þar sem ekki er fjallað um nokkuð annað. Þá munu að minnsta kosti þrjár íslenskar sjónvarpsstöðvar sýna reglulega frá slíkum leikjum fullorðinna, jafnvel í beinni útsendingu. Vefþjóðviljinn hefur hingað til ekki sinnt þessu sviði mannlífsins að ráði og er því ekki að neita að ýmsir lesendur blaðsins hafa fundið að þessu á undanförnum árum. Og þar sem Vefþjóðviljinn vill allt fyrir alla gera hefur hann ákveðið að fjalla lítillega um íþróttir í tilraunaskyni.

Roy Carroll greip í tómt
Roy Carroll greip í tómt

Þá er líklega rétt að hefja umfjöllunina á nýjasta leik íslensks fótboltalandsliðs við útlendinga. Í fyrradag kepptu íslenskir fótboltamenn við lið frá Norður-Írlandi og var þetta hinn besti leikur. Markverðast í leiknum var tvímælalaust glæsimark Íslendinganna í lokin. Var markið svo glæsilegt að í raun dregur það alls ekki úr gildi þess að það var ólöglegt samkvæmt knattspyrnureglum. Eins og íþróttaáhugamenn hafa að sjálfsögðu tekið eftir var Þórður Guðjónsson, sá er skoraði markið, í raun rangstæður þegar hann gerði það. Vissulega var norður-írskur varnarmaður markmegin við Þórð er Þórði var sendur knötturinn. En samkvæmt knattspyrnureglum er það ekki nægilegt. Samkvæmt reglum verða tveir leikmenn andstæðinganna að vera markmegin við þann er fær knöttinn sendan. Við allar venjulegar aðstæður er markmaðurinn í markinu og þarf þá aðeins einn varnarmaður að vera „fyrir innan“ sóknarmanninn til að ekki sé um rangstöðu að ræða. En í leiknum í fyrrakvöld var norður-írski markmaðurinn Roy Carroll kominn langt frá marki sínu og einungis einn Norður-Íri var markmegin við Þórð. Þórður var því rangstæður og markið ólöglegt. En þetta er aukaatriði, sigur íslensku leikmannanna var sanngjarn þó sigurmarkið hafi að vísu ekki verið mark.

Þetta var fyrsta íþróttaumfjöllun Vefþjóðviljans. Vefþjóðviljinn væntir þess að hún falli í góðan jarðveg hjá íþróttaáhugamönnum.