Helgarsprokið 15. október 2000

289. tbl. 4. árg.

Mikill vandi blasir við í íslensku þjóðlífi og hafa ýmsir orðið til að ræða hann og reifa fram og til baka. Menn hafa komist að þeirri niðurstöðu að þó þetta sé vissulega óskaplegur vandi þá sé hann þó ánægjulegur, ólíkt því ef aðstæður væru þveröfugar við það sem nú er. Þessi gríðarlegi vandi er vitaskuld hvað gera skuli við þá 30 milljarða króna sem talið er að muni ganga af ríkissjóði á næsta fjárlagaári.

En um leið og vandi Íslendinga er þannig mikill eru þeir þó heppnir að eiga ráðagóða einstaklinga víða um þjóðfélagið sem fundið hafa ýmsar og ólíkar lausnir á vandanum. Ein hinna miklu lausna er að ríkið noti þessa fjármuni til að greiða fyrir einhverja mikilvæga samfélagslega þjónustu, eins og það er nefnt. Dæmi má nefna að ríkið gæti sett meira fé í menntamál, en það mundi að sögn stuðningsmanna tillögunnar vera afar hagstætt fyrir þjóðina, því menntun sé svo ábatasöm. Engar sannanir eru að vísu færðar fyrir því að mikill ábati fáist af því að ríkið auki framlög sín til menntunar hér á landi, en þessu er samt haldið fram og enginn má efast um þetta. Margir aðrir möguleikar hafa verið nefndir til að eyða þessu fé með auknum ríkisútgjöldum og má hver maður sjá að þessi leið væri að ýmsu leyti auðveld og vel fær.

Þá hafa verið settar fram hugmyndir – og það meira að segja í fullri alvöru – um að ríkið skuli nota vandann, þ.e. fjárlagaafganginn, til að stofna sérstakan sjóð. Þessi sjóður hefði það lítt skilgreinda hlutverk að vera sameiginlegur skyldusparnaður Íslendinga og yrði hann notaður í eitthvað einhvern tímann, eða bara safnað til eilífðar. Loks hafa verið settar fram hugmyndir um að leysa vandann með því að ríkið flýti sér að greiða niður skuldir sínar. Þetta hefði vissulega ýmsa kosti enda er skuldasöfnun ríkisins afar leiðinlegt fyrirbæri og hún hefur verið gegndarlaus í gegnum tíðina.

Sú leið til að leysa hinn alvarlega vanda sem að þjóðinni steðjar vegna fjárlagaafgangsins sem lítt eða ekki hefur verið rædd er þó sú einfaldasta og augljósasta. Hún er ef til vill of augljós til að koma til álita í stjórnmálum. Hér er vitaskuld átt við þá leið að taka þessa fjármuni alls ekki af skattgreiðendum á næsta fjárlagaári og láta þennan mikla afgang, 30 milljarða króna, þar með aldrei verða að veruleika. En tölur á borð við þessa 30 milljarða króna er alltaf erfitt að skilja og þess vegna er gott að setja þær í annað samhengi. Ef tölunni er til að mynda deilt niður á hvern einstakling á Íslandi þá sést að á næsta ári hyggst ríkið leggja rúmlega 100.000 króna umframskatt á hvert mannsbarn. Þetta þýðir líka að hver fjögurra manna fjölskylda mun á næsta ári greiða nálægt hálfri milljón króna meira í skatt en nauðsyn krefur. Skattheimta er aldrei nema hæfilega geðfelld, en umframskattheimta, sem aðeins er lögð á til að þurfa ekki að lækka skatthlutföll, tekur út yfir allan þjófabálk.

Stundum heyrist talað um að bæta þurfi samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs eða kjör almennings. Nú er gullið tækifæri til að gera hvort tveggja. Hægt er að lækka skatta á atvinnulífið verulega og auka þannig þrótt þess. Með því móti batnar líka staða launamanna. Eins er hægt að lækka almennt tekjuskattshlutfall einstaklinga og hætta að refsa mönnum með hátekjuskatti fyrir að vinna mikið. Ýmsa aðra skatta má lækka til að bæta kjör fólks og efla atvinnulíf hér á landi en aðalatriðið er að ríkið taki alls ekki meira til sín en það telur sig nauðsynlega þurfa og að menn láti sér ekki detta í hug að ríkið sé betur til þess fallið en almenningur að verja fjármunum almennings af skynsemi.