Árið 1998 gaf Evrópusambandið út tilskipun til aðildarríkja sinna um bann við auglýsingum á tóbaki. Dómstóll Evrópusambandsins hnekkti banninu í gær en þýsk stjórnvöld höfðu kært tilskipunina á þeirri forsendu að ekki mætti gefa út slíka tilskipun á grundvelli hins sameiginlega markaðar ESB. Hins vegar væri ESB stætt á því að setja slíkar reglur af heilbrigðisástæðum. Tilskipunin var því felld úr gildi á tæknilegum forsendum. Vafalaust verða því komnar reglur um þetta í ESB innan tíðar enda er það mikið kappsmál fyrir suður-evrópska tóbaksframleiðendur að koma í veg fyrir að bandarískir tóbaksframleiðendur geti kynnt vöru sína fyrir neytendum og þar með aukið markaðshlutdeild sína á kostnað hinna evrópsku.
Um þessa tilskipun sagði hér í Vef-Þjóðviljanum 15. maí 1998: „Forsjárhyggjan birtist í ýmsum myndum og eru sumar vel sýnilegar, eins og tíðar kröfur um aukin útgjöld í hitt og þetta, en aðrar eru betur faldar. Ein þeirra er samþykkt þings Evrópusambandsins í gær um að banna allar tóbaksauglýsingar innan fárra ára. Það verða ekki aðeins beinar auglýsingar sem fá að fjúka heldur líka óbeinar, þ.á.m. vörumerki eins og Camel skór. Eins og við var að búast olli þessi samþykkt miklum deilum og gera sumir þingmenn ráð fyrir að henni verði hnekkt fyrir dómi, enda hafi Evrópusambandið ekki rétt til að ákveða svona nokkuð. Það breytir þó ekki þeirri hugsun sem skín í gegn, að frelsi manna, m.a. til að tjá sig, sé heldur léttvægt og að í lagi sé að skerða það ef ráðamönnum þóknast. Það virðist nefnilega stundum eins og fólk haldi að ef sem það býr við lýðræði sé allt í lagi. Meirihlutinn geti bara kosið hvað sem er yfir sig og minnihlutann og meirihluti þingmanna megi í framhaldi af því samþykkja hvað sem er.“
Bæði áfengis- og tóbaksauglýsingar hafa verið bannað hér á landi um árabil þ.e.a.s. ef þær birtast í íslenskum fjölmiðlum. Íslenskir fjölmiðlar verða af umtalsverðum tekjum vegna þessa banns, innflytjendur og framleiðendur geta ekki kynnt vörur sínar og neytendur fá ekki upplýsingar um nýja rauðvínið. Ef til vill þykir ýmsum sem hér sé „bara verið að banna mönnum að auglýsa einhverjar vörur“. Spyrja má hvar þeir ætla að draga mörkin. Það er ýmislegt fleira auglýst sem spillt getur heilsu manna en áfengi og tóbak. Hvað með skyndibita, mörmikla lifrarpylsu og sælgæti? Hvað með sósíalíska stjórnmálaflokka? Hafa fleiri drepið sig á drykkju eða fallið hafa fyrir sósíalismanum? Larry Flint útgefandi klámblaðsins Hustler sagði eitt sinn við blaðamenn að auðvitað ættu þeir að styðja sig í baráttunni fyrir því að fá að gefa Hustler út vegna þess að á meðan hann fengi að gefa Hustler út gætu þeir verið vissir um að fá að gefa sín blöð út. Það sama á við um auglýsingar á vörum eins og áfengi og tóbaki. Ef menn njóta ekki málfrelsis til að auglýsa áfengi og tóbak er aldrei að vita hvað verður bannað að segja næst.